2. sunnudagur í aðventu – Frelsarinn kemur
Litur: Fjólublár. Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.Vers vikunnar:
„En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.·“ (Lúk 21.28)
Kollekta:
Vek þú, Drottinn hjörtu vor, að þau greiði einkasyni þínum veg og oss veitist að þjóna þér hreinum huga vegna komu hans sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Jes 11.1-9
Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta
og sproti vaxa af rótum hans.
Andi Drottins mun hvíla yfir honum:
andi speki og skilnings,
andi visku og máttar,
andi þekkingar og guðsótta.
Guðsóttinn verður styrkur hans.
Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá
og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra.
Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu
og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.
Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns,
deyða hinn guðlausa með anda vara sinna.
Réttlæti verður belti um lendar hans,
trúfesti lindinn um mjaðmir hans.
Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu
og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman
og smásveinn gæta þeirra.
Kýr og birna verða saman á beit,
ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru,
og ljónið mun bíta gras eins og nautið.
Brjóstmylkingurinn mun leika sér
við holu nöðrunnar
og barn, nývanið af brjósti,
stinga hendi inn í bæli höggormsins.
Enginn mun gera illt,
enginn valda skaða
á mínu heilaga fjalli
því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni
eins og vatn hylur sjávardjúpið.
Pistill: Róm 15.4-7, 13
Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa. En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists.
Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar.
Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.
Guðspjall: Lúk 21.25-33
Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“
Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
Sálmur: 62
Sól og tungl mun sortna hljóta,
sérhver blikna stjarna skær,
öldur hafs í æði þjóta,
angist ríkja fjær og nær,
alls kyns neyð og eymdir rísa,
enginn þeirri býsn kann lýsa.
Svo fer dagur dóms í hönd,
dynur skelfing yfir lönd.
En er kraftar himna hrærast,
heilög sjón mun ljóma brátt,
hún á skýjum skjótt mun færast
skærri sól um loftið blátt.
Hátign með og miklu veldi
mannsins son, er dauðann felldi,
kemur degi dómsins á
dýrðarsölum himins frá.
Lítið upp sem lútið niður,
lítið upp er slíkt að ber,
skelfi neyð þá engin yður,
yðar lausn því nálæg er.
Horfið upp frá höfum nauða,
horfið upp frá gröfum dauða,
horfið upp frá harmi og sorg,
horfið upp í lífsins borg.
Aftur sé ég unga rísa
endurborna jörðu þá,
aftur sé ég ljósin lýsa
ljóssins skæru hvelfing á,
Endurleyst er allt úr dróma,
endurreist í nýjum blóma,
nýjan himin, nýja jörð
nú má byggja Drottins hjörð.
Sól og tungl mun sortna hljóta
sérhver blikna stjarna skær.
Aldrei slokkna, aldrei þrjóta
orðsins ljós, er Guð oss ljær.
Jörð og himinn fyrirfarast
fyrr en nokkur maður varast.
Orðsins ljós þó aldrei dvín,
eilíft það í heiði skín.
Sb. 1886 – Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, í heiminum er ótti og þjáning. Við þráum réttlæti og frið. Kom þú skjótt, endurnýja sköpun þína, svo að að óp örvæntingarinnar og stunur hræðslunnar megi breytast í lofsöng. Um það biðjum við, og á þig vonum við, um tíma og eilífð. Amen.