Mánudagur í kyrruviku
Á mánudegi í kyrruviku er lesin píslarsagan samkvæmt Matteusi. (Matt 26.6 – 27.56).Vers vikunnar:
„En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Róm 5.8)
Textaröð: A
Pistill: Róm 5.6–11
Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan mann kynni einhver ef til vill að vilja deyja. En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar. Því fremur mun hann nú frelsa okkur frá reiðinni þar sem við erum réttlætt fyrir blóð Krists. Hafi Guð, þegar við vorum óvinir hans, tekið okkur í sátt með dauða sonar síns, mun hann því fremur nú, þegar hann hefur sætt okkur við sig, frelsa okkur með lífi hans. Og ekki það eitt, heldur fögnum við í Guði vegna Drottins vors Jesú Krists sem hefur sætt okkur við Guð.
Guðspjall: Matt 26.6–13
En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa. Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum þar sem hann sat að borði. Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: „Til hvers er þessi sóun? Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum.“
Jesús varð þess vís og sagði við þá: „Hvað eruð þið að angra konuna? Gott verk gerði hún mér. Fátæka hafið þið jafnan hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt. Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn var hún að búa mig til greftrunar. Sannlega segi ég ykkur: Hvar um heim sem fagnaðarerindi þetta verður flutt mun þess getið sem hún gerði og hennar minnst.“
Sálmur: 133
Jesús eymd vora alla sá,
ofan kom til vor jörðu á,
hæðum himna upprunninn af,
undir lögmálið sig hann gaf.
Viljuglega í vorn stað gekk,
var sú framkvæmdin Guði þekk,
föðurnum hlýðni fyrir oss galt,
fullkomnaði svo lögmálið allt.
Fullkomnað lögmál fyrir þig er,
fullkomnað gjald til lausnar þér,
fullkomnað allt, hvað fyrir var spáð,
fullkomna skaltu eignast náð.
Herra Jesús, ég þakka þér,
þvílíka huggun gafstu mér,
ófullkomleika allan minn
umbætti guðdómskraftur þinn.
Hjálpa þú mér, svo hjartað mitt
hugsi jafnan um dæmið þitt
og haldist hér í heimi nú
við hreina samvisku og rétta trú.
Hallgrímur Pétursson (Ps. 43)
Bæn dagsins:
Eilífi Guð. Sonur þinn Jesús Kristur gaf sig í dauðann á krossi af því að hann elskaði þennan heim. Leyfðu okkur að dvelja í elsku hans og sækja þangað kraft og líf. Við biðjum þig í nafni Jesú Krists, bróður okkar og Drottins. Amen.