Síðasti sunnudagur eftir þrettánda – Ummyndun/ Bænadagur á vetri
Síðasti sunnudagur eftir þrettánda – Ummyndun/ Bænadagur á vetriLitur: Hvítur.
Vers vikunnar:
„Því að Guð sem sagði: „Ljós skal skína fram úr myrkri!“ lét það skína í hjarta mitt til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“ (2Kor 4.6)
Kollekta:
Guð, sem staðfestir leyndardóma trúarinnar fyrir dýrlega ummyndum þíns elskaða sonar: Veit af náð þinni að við megum verða samarfar ríkis hans og hluttakendur í dýrð hans sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 2M 34.27-35
Drottinn sagði við Móse: „Skráðu þessi fyrirmæli því að samkvæmt þeim geri ég sáttmála við þig og Ísrael.“ Móse var með Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur án þess að neyta brauðs eða vatns og hann skráði á töflurnar orð sáttmálans, boðorðin tíu. Þegar Móse var á leiðinni niður af Sínaífjalli með báðar töflurnar í höndum sér vissi hann ekki að ljómi stóð af andliti hans því að hann hafði talað við Drottin. En Aron og allir Ísraelsmenn sáu að ljómi stóð af andliti hans svo að þeir þorðu ekki að koma nærri honum. Þá kallaði Móse á þá og Aron og allir leiðtogar safnaðarins sneru aftur til hans og Móse ávarpaði þá. Síðan komu allir aðrir Ísraelsmenn nær og hann skýrði þeim frá öllu því sem Drottinn hafði boðið honum á Sínaífjalli. Þegar Móse hafði lokið máli sínu huldi hann andlit sitt með skýlu. En þegar Móse gekk fyrir auglit Drottins til að tala við hann tók hann af sér skýluna þar til hann gekk út aftur. Síðan gekk hann út og sagði Ísraelsmönnum frá því sem honum hafði verið falið. Þegar Ísraelsmenn sáu andlit Móse sáu þeir að ljómi stóð af andliti hans. Þá huldi Móse andlit sitt aftur með skýlu þar til hann fór til að tala við Drottin.
Pistill: 2Kor 3.13-18
Ég geri ekki eins og Móse sem setti skýlu fyrir andlit sér til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á ljóma þess sem var að hverfa. En hugur þeirra varð sljór. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt því að Kristur einn lætur hana hverfa. Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra hvenær sem lesið er úr lögmáli Móse. En „þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt“. Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. En við sjáum öll með óhjúpuðu andliti dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar.
Guðspjall: Mrk 9.2-9
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir.
Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.