5. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Eftirfylgd / Kallið sem bjargar / Send mig!
Litur: Grænn.Vers vikunnar: Ef 2.8
Því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf.
Kollekta:
Drottinn Guð, þú, sem hefur fyrirbúið þeim er þig elska þá blessun, er ekkert auga leit: Lát hjörtu okkar fyllast kærleika svo að við elskum þig í öllu og öðlumst þannig það sem þú hefur heitið og yfirgnæfir allar óskir okkar. Fyrir son þinn Jesú Krist, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jer 1.4-10
Orð Drottins kom til mín:
Áður en ég mótaði þig í móðurlífi valdi ég þig.
Áður en þú fæddist helgaði ég þig
og ákvað að þú yrðir spámaður fyrir þjóðirnar.
Ég svaraði: „Drottinn minn og Guð.
Ég er ekki fær um að tala því að ég er enn svo ungur.“
Þá sagði Drottinn við mig:
„Segðu ekki: Ég er enn svo ungur.
Þú skalt fara hvert sem ég sendi þig
og boða hvað eina sem ég fel þér.
Þú skalt ekki óttast þá
því að ég er með þér til að bjarga þér,“
segir Drottinn.
Síðan rétti Drottinn út hönd sína, snerti munn minn og sagði við mig:
„Hér með legg ég orð mín þér í munn.
Ég veiti þér vald
yfir þjóðum og ríkjum
til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna,
til að byggja upp og gróðursetja.“
Pistill: 1Pét 2.4 -10
Komið til hans, hins lifanda steins, sem menn höfnuðu en er í augum Guðs útvalinn og dýrmætur. Látið sjálf uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús til heilags prestdóms, til að bera fram andlegar fórnir fyrir Jesú Krist, Guði velþóknanlegar. Því að svo stendur í Ritningunni:
Sjá, ég set hornstein í Síon,
valinn og dýrmætan.
Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.
Yður sem trúið er hann dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
orðinn að hyrningarsteini
og:
ásteytingarsteini og hrösunarhellu.
Þeir steyta sig á honum af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.
En þið eruð „útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin „Guðs lýður“. Þið sem „ekki nutuð miskunnar“ hafið nú „miskunn hlotið“.
Guðspjall: Lúk 5.1-11
Nú bar svo til að Jesús stóð við Genesaretvatn og mannfjöldinn þrengdist að honum til að hlýða á Guðs orð. Þá sá hann tvo báta við vatnið en fiskimennirnir voru farnir í land og þvoðu net sín. Hann fór út í þann bátinn er Símon átti og bað hann að leggja lítið eitt frá landi, settist og tók að kenna mannfjöldanum úr bátnum.
Þegar hann hafði lokið ræðu sinni sagði hann við Símon: „Legg þú út á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.“
Símon svaraði: „Meistari, við höfum stritað í alla nótt og ekkert fengið en fyrst þú segir það skal ég leggja netin.“ Nú gerðu þeir svo og fengu þeir þá mikinn fjölda fiska en net þeirra tóku að rifna. Bentu þeir þá félögum sínum á hinum bátnum að koma og hjálpa sér. Þeir komu og hlóðu báða bátana svo að nær voru sokknir.
Þegar Símon Pétur sá þetta féll hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði: „Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er syndugur maður.“ En felmtur kom á hann og alla þá sem með honum voru vegna fiskaflans er þeir höfðu fengið. Eins var um Jakob og Jóhannes Sebedeussyni, félaga Símonar. Jesús sagði þá við Símon: „Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.“
Og þeir lögðu bátunum að landi, yfirgáfu allt og fylgdu honum.
Sálmur: 182
Legg þú á djúpið eftir Drottins orði
og æðrast ei, því nægja mun þinn forði,
þótt ómaksför þú farir marga stund.
Ef trú og dáð og dugur ei þig svíkur,
er Drottinn lífs þíns ennþá nógu ríkur
og mild hans mund.
Legg þú á djúpið, þegar Kristur kallar,
og kveð án tafar holdsins girndir allar,
og feta beint í fótspor lausnarans,
og lát ei kross né kvalir ykkur skilja,
en keppstu við að stunda Guðs þíns vilja
með hlýðni hans.
Legg þú á djúpið, þú, sem enn ert ungur,
og æðrast ei, þótt straumur lífs sé þungur,
en set þér snemma háleitt mark og mið,
haf Guðs orð fyrir leiðarstein í stafni
og stýrðu síðan beint í Jesú nafni
á himins hlið.
Legg þú á djúpið, þú sem þreyttur lendir
úr þungaróðri heimsins, – Jesús bendir,-
ó, haf nú Drottin hjá þér innanborðs.
Þú fer þá góða för í síðsta sinni,
því sálarforða skaltu byrgja inni
Guðs eilífs orðs.
Legg þú á djúpið, ó, þú sál mín auma,
en eftir skildu hégómlega drauma,
þeir sviku þig, og sjá, þinn afli brást.
Á djúpið út, það kvöldar, Jesús kallar,
því kvitta vill nú syndir þínar allar
Guðs eilíf ást.
Sb. 1886 – Matthías Jochumsson