Fullveldisdagurinn 1. desember
Fullveldisdagurinn 1. desember
Lexía: Jer 32.38-41 Pistill: 1Tím 2.1-4 Guðspjall: Jóh. 15. 9-12
Litur rauður
Vers dagsins:
Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels,
sem einn vinnur máttarverk.
Lofað sé hans dýrlega nafn um aldur og ævi
og öll jörðin fyllist dýrð hans! (Sálm 72.18-19)
Bæn dagsins / kollektan
Almáttugi Guð sem hefur gefið okkur land þar sem við höfum frelsi til að játa þitt heilaga
nafn, tilbiðja þig og þjóna þér og leita ríkis þíns: Við biðjum þig að kenna okkur að meta
þessa gjöf, varðveita hana og ávaxta til eilífra heilla fyrir okkur og komandi kynslóðir. Fyrir
son þinn Jesú Krist Drottin vorn sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur
Guð um aldir alda. Amen.
Lexía: Jer 32.38-41
Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina
breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.
Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég
legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist
þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.
Pistill: 1Tím 2.1-4
Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla
menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað
friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara
vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
Guðspjall: Jóh. 15. 9-12
(Jesús sagði) Ég hef elskað yður eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðug í elsku
minni. Ef þér haldið boðorð mín verðið þér stöðug í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð
föður míns og er stöðugur í elsku hans.
Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé
fullkominn. Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður.
Sálmur Sb 786
1 Upp, þúsund ára þjóð,
með þúsund radda ljóð.
Upp, allt sem er og hrærist
og allt sem lífi nærist.
Upp, harpa Guðs, þú heimur.
Upp, haf og landageimur.
2 Skín, sól, á sumarfjöll
og signdu vatnaföll,
breið geisla guðvefsklæði
á grundir, skóg og flæði,
gjör fjöll að kristallskirkjum
og kór úr bjarga virkjum.
3 Krjúp lágt, þú litla þjóð,
við lífsins náðarflóð.
Eilífum Guði alda
þú átt í dag að gjalda
allt lánsfé lífs þíns stunda
með leigum þúsund punda.
4 Upp, upp, þú Íslands þjóð
með eldheitt hjartablóð,
Guðs sólu signd er foldin,
öll sekt í miskunn goldin:
Þú átt, þú átt að lifa
öll ár og tákn það skrifa.
5 Kom, Jesú Kristí trú,
kom, kom og í oss bú,
kom, sterki kærleiks kraftur,
þú kveikir dáið aftur.
Ein trú, eitt ljós, einn andi
í einu fósturlandi.
6 Guð faðir, lífs vors líf,
þú lands vors eilíf hlíf,
sjá, í þér erum, hrærumst
og af þér lifum, nærumst,
þú telur minnstu tárin
og tímans þúsund árin.
T Matthías Jochumsson 1874 – Sb. 1945