Föstudagurinn langi Dauði á krossi
Föstudagurinn langiDauði á krossi
Litur: Fjólublár eða svartur.
Vers dagsins:
„En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Róm 5.8)
Kollekta:
Algóði, eilífi Guð sem svo elskaðir heiminn að þú gafst einkason þinn í dauðann fyrir okkur, við biðjum þig að leysa okkur undan öllu valdi hins illa og frelsa okkur frá dauðanum til eilífs lífs fyrir dauða Drottins vors Jesú Krists sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Hós 6.1-6
Komið, hverfum aftur til Drottins
því að hann reif sundur en mun lækna oss,
hann særði en mun gera að sárunum.
Hann lífgar oss eftir tvo daga,
á þriðja degi reisir hann oss upp,
til þess að vér lifum fyrir augliti hans.
Vér skulum leita þekkingar,
sækjast eftir að þekkja Drottin.
Hann kemur jafn áreiðanlega og morgunroði,
eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn.
Hvað á ég að gera við þig, Efraím,
hvernig að fara með þig, Júda?
Tryggð þeirra er eins og morgunþoka,
eins og dögg sem hverfur skjótt.
Þess vegna hegg ég þá með spámönnum,
veg þá með orðum munns míns
og réttur minn mun ljóma sem birta.
Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn
og guðsþekking fremur en brennifórn.
Pistill: Heb 9. 15, 27-28
Þess vegna er hann (Kristur) meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum til þess að þau sem Guð hafði kallað mættu öðlast hina eilífu arfleifð sem heitið var.
Á sama hátt og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm, þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og aftur mun hann birtast, ekki sem syndafórn heldur til að frelsa þá sem bíða hans.
Guðspjall: Matt 27.33-55
Og er þeir komu til þess staðar er heitir Golgata, það þýðir hauskúpustaður, gáfu þeir Jesú vín að drekka, galli blandað. Hann bragðaði það en vildi ekki drekka.
Þá krossfestu þeir hann. Og þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér, sátu þar svo og gættu hans. Yfir höfði hans festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA. Þá voru krossfestir með honum tveir ræningjar, annar til hægri, hinn til vinstri.
Þeir sem fram hjá gengu hæddu Jesú, skóku höfuð sín og sögðu: „Þú sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum. Bjarga nú sjálfum þér ef þú ert sonur Guðs og stíg niður af krossinum!“
Eins gerðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og öldungarnir og sögðu: „Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Hann er konungur Ísraels, stígi hann nú niður af krossinum, þá skulum við trúa á hann. Hann treystir Guði. Nú ætti Guð að frelsa hann ef hann hefur mætur á honum. Eða sagði hann ekki: Ég er sonur Guðs?“
Einnig ræningjarnir, sem með honum voru krossfestir, smánuðu hann á sama hátt.
En frá hádegi varð myrkur um allt land til nóns. Og um nón kallaði Jesús hárri röddu: „Elí, Elí, lama sabaktaní!“ Það þýðir: „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“
Nokkrir þeirra er þar stóðu heyrðu þetta og sögðu: „Hann kallar á Elía!“ Jafnskjótt hljóp einn þeirra til, tók njarðarvött og fyllti ediki, stakk á reyrstaf og gaf honum að drekka.
Hinir sögðu: „Sjáum til hvort Elía kemur að bjarga honum.“
En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann.
Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir heilagir menn, sem látnir voru, risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum.
Þegar hundraðshöfðinginn og þeir sem gættu Jesú með honum sáu landskjálftann og atburði þessa hræddust þeir mjög og sögðu: „Sannarlega var þessi maður sonur Guðs.“
Þar voru og margar konur sem álengdar horfðu á, þær höfðu fylgt Jesú frá Galíleu og þjónað honum.