1. sunnudagur eftir páska (Quasimodogeniti) Hin nýja fæðing / Vitni páskanna
Litur: Hvítur.Vers vikunnar:
„Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.“ (1Pét 1.3)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, við biðjum þig: Veit okkur sem höfum haldið heilaga upprisuhátíð Drottins náð þína til þess að lifa í ljósi hennar og þjóna í sannri trú og kærleika syni þínum og Drottni okkar og frelsara Jesú Kristi sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 43.8-13
Færið fram hina blindu þjóð
sem þó hefur augu
og hina heyrnarlausu menn
sem þó hafa eyru.
Allar þjóðir skulu safnast í einn hóp
og lýðirnir koma saman.
Hver þeirra gat boðað þetta
og skýrt oss frá því sem varð?
Leiði þeir fram vitni sín
og færi sönnur á mál sitt
svo að þeir sem heyra segi: „Þetta er rétt.“
Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn,
þjónn minn sem ég hef útvalið
svo að þér vitið og trúið mér.
Skiljið að ég er hann.
Enginn guð var myndaður á undan mér
og eftir mig verður enginn til.
Ég er Drottinn, ég einn,
og enginn frelsari er til nema ég.
Það var ég sem boðaði, frelsaði og kunngjörði þetta
en enginn framandi guð á meðal yðar.
Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn,
að það er ég sem er Guð.
Héðan í frá er ég einnig hinn sami,
enginn hrifsar neitt úr hendi minni,
ég framkvæmi, hver fær aftrað því?
Pistill: 1Jóh 5.4-12
því að sérhvert barn Guðs sigrar heiminn og trú okkar er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.
Hver er sá sem sigrar heiminn nema sá sem trúir að Jesús sé sonur Guðs?
Hann er sá sem kom með vatni og blóði, Jesús Kristur. Ekki með vatninu eingöngu heldur með vatninu og með blóðinu. Og andinn er sá sem vitnar því að andinn er sannleikurinn. Þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:] Andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. Við tökum manna vitnisburð gildan en vitnisburður Guðs er meiri. Þetta er vitnisburður Guðs sem hann hefur vitnað um son sinn. Sá sem trúir á son Guðs hefur vitnisburðinn innra með sér. Sá sem ekki trúir Guði hefur gert hann að lygara af því að hann hefur ekki trúað á þann vitnisburð sem Guð hefur vitnað um son sinn. Og þetta er vitnisburðurinn: Guð hefur gefið okkur eilíft líf og þetta líf er í syni hans. Sá sem hefur soninn á lífið, sá sem ekki á son Guðs á ekki lífið.
Guðspjall: Jóh 20.19-31
Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“
En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“
En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“
Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“
Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.
Sálmur: 150
Að luktum dyrum kom lausnarinn
til lærisveinanna forðum
og bar þeim miskunnarboðskap sinn
með blessuðum friðarorðum.
Um læstar dyr kemst lausnarinn enn,
Guðs lög þótt standi’ í skorðum.
Í Eden forðum var lokuð leið
að lífsins blómguðum viði.
Kerúb með sveipanda sverð þar beið
með sínu himneska liði.
Um læstar dyr kom þar lausnarinn
og lauk upp því gullna hliði.
Og enn er þó harðlæst hjarta manns
og harðlega móti stríðir
og guðdómsraust eigi gegnir hans,
er gjörvöll náttúran hlýðir.
Um læstar dyr kemur lausnarinn
og lýkur þó upp um síðir.
Og eitt sinn grafar hið dimma djúp
yfi’r dauðum oss lykjast tekur.
Þar blundum vér allir í bleikum hjúp,
uns básúnan löndin skekur.
Um læstar dyr kemur lausnarinn
og lúður hans alla vekur.
Og lífsins bók er þó lokað enn
og leiðinni’ að dýrðarhöllum.
Þar stöndum vér daprir, dæmdir menn
og Drottins miskunn áköllum.
Ó, lausnari vor, kom um læstar dyr
og ljúk upp fyrir oss öllum.
Valdimar Briem