3. sunnudagur eftir páska (Iubilate) Ný sköpun / Vegurinn til lífsins
3. sunnudagur eftir páska (Iubilate)Ný sköpun / Vegurinn til lífsins
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
„Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til.“ (2Kor 5.17)
Kollekta:
Drottinn Guð sem lætur þau sem villast sjá ljós sannleika þíns svo að þau fái aftur komist á hinn rétta veg: Gef öllum þeim sem játast undir kristið nafn að hafna öllu sem andstætt er því nafni og ástunda það sem því er samboðið. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Slm 126
Helgigönguljóð.
Þegar Drottinn sneri við hag Síonar
var sem oss dreymdi.
Þá fylltist munnur vor hlátri
og tungur vorar fögnuði.
Þá sögðu menn meðal þjóðanna:
„Mikla hluti hefur Drottinn gert við þá.“
Drottinn hefur gert mikla hluti við oss,
vér vorum glaðir.
Snú við hag vorum, Drottinn,
eins og þú fyllir þurra farvegi í Suðurlandi.
Þeir sem sá með tárum
munu uppskera með gleðisöng.
Grátandi fara menn
og bera sáðkorn til sáningar,
með gleðisöng koma þeir aftur
og bera kornbindin heim.
Pistill: 2Kor 4.14-18
Ég veit að Guð, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja mig ásamt Jesú og leiða mig fram ásamt ykkur. Allt er þetta ykkar vegna til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.
Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Ég horfi ekki á hið sýnilega heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt en hið ósýnilega eilíft.
Guðspjall: Jóh 14.1-11
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“
Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“
Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna.