4. sunnudagur páskatímans (Kantate) Syngjandi söfnuður - Að vaxa í trú
Litur: Hvítur.Vers vikunnar: Slm 98.1a
Syngið drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk.
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð sem gerir þau öll sem á þig trúa samhuga, við biðjum þig: Gef okkur náð til þess að elska það sem þú býður og þrá það eitt sem þú heitir svo hjörtu okkar megi í öllum umskiptum þessa heims vera staðföst þar sem er hinn sanni fögnuður ríkir. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Esk 36.26-28
Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.
Pistill: Jak 1.17-21
Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.
Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.
Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
Sálmur: 162
Minn Herra Jesús, hvert fer þú?
ei hryggur þarf ég spyrja nú,
ég veit þú fórst til föður heim
og fagna nú af boðskap þeim.
En hins má spyrja: Hvert fer þú,
sem heyrir raust þíns Drottins nú?
Hvort ferðast þú á ferli þeim,
til föður þíns er liggur heim?
Ó, hvert fer þú, mitt barnið blítt,
er brosir nú svo milt og hlýtt?
Ó, Guð veit, hvar þín liggur leið,
hann leiði þig um æviskeið.
Og hvert fer þú, sem hraðar þér
og hart í lífsins kappleik fer?
Ó, keppstu hnoss að höndla það,
er himins dyrum leiðir að.
Og hvert fer þú, sem langa leið
um lífsins hefur runnið skeið?
Ef röngum vegi ertu á,
tak aðra stefnu! betri þá.
Þú maður, hvert sem hér þú fer,
Guðs helgur andi fylgi þér,
og hvar sem liggur leiðin þín,
þig leiði Drottinn heim til sín.
Sb. 1886 – Valdimar Briem