3. sunnudagur í föstu (Oculi) Fórnarvilji
3. sunnudagur í föstu (Oculi)Fórnarvilji
Vers vikunnar:
„Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ (Lúk 9.62)
Kollekta:
Við biðjum þig, almáttugi Guð: Heyr bænir vorar, barna þinna og lát þína voldugu verndarhönd hlífa okkur og hjálpa. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1. Sam 17.40-50
(Davíð) tók staf sinn sér í hönd og valdi fimm hála steina úr ánni, lét þá í smalatösku sína, sem hann var með, og hafði slöngvusteinana í. Hann hélt síðan gegn Filisteanum með slöngvu sína í hendi.
Filisteinn gekk fram og nálgaðist Davíð og maðurinn, sem bar skjöld hans, gekk fyrir honum. Filisteinn kom auga á Davíð og leit til hans með fyrirlitningu því að hann var aðeins unglingur, fríður og rauðbirkinn. „Heldurðu að ég sé hundur,“ spurði Filisteinn Davíð, „úr því að þú kemur á móti mér með staf?“ Og Filisteinn formælti Davíð við guð sinn og hrópaði til Davíðs: „Komdu hingað. Ég skal gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar hræ þitt að éta.“ Davíð svaraði Filisteanum: „Þú kemur á móti mér með sverð, spjót og lensu en ég kem á móti þér í nafni Drottins hersveitanna. Hann er Guð herfylkinga Ísraels sem þú hefur smánað. Í dag mun Drottinn framselja þig í hendur mér. Ég mun fella þig og höggva af þér höfuðið. Í dag mun ég gefa fuglum himinsins og dýrum merkurinnar hræ þitt og hræ hermanna Filistea. Þá munu allir íbúar jarðarinnar viðurkenna að Ísrael á sér Guð. Allir, sem hér eru saman komnir, skulu viðurkenna að Drottinn frelsar ekki með sverði og spjóti. Þetta er stríð Drottins og hann mun framselja ykkur í hendur okkar.“ Filisteinn hélt af stað og gekk fram gegn Davíð. Hann hljóp hratt á móti honum í áttina að herfylkingunni, stakk hendinni í töskuna, tók úr henni stein og slöngvaði og hæfði Filisteann í ennið. Grófst steinninn í enni Filisteans sem féll á grúfu til jarðar. Þannig sigraði Davíð Filisteann með slöngvu og steini. Hann felldi hann og drap án þess að hafa sverð í hendi.
Pistill: Opb 2.8-11
Engli safnaðarins í Smyrnu skaltu rita:
Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: Ég þekki þrengingu þína og fátækt – en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki heldur samkunda Satans. Kvíð þú ekki því sem þú átt að líða. Djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi til þess að reyna yður og þér munuð þola þrengingu í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.
Guðspjall: Jóh 8.42-51
Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“
Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“
Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“