15. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Jarðnesk gæði / Eitt er nauðsynlegt
Litur: Grænn.Vers vikunnar: 1Pét 5.7
Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.
Kollekta:
Drottinn Guð: Lát eilífa miskunn þína hreinsa og vernda kirkju þína. Stjórna henni í mildi þinni, því að án þín má hún eigi stöðug standa né hólpin verða. Fyrir son þinn Jesú Krist, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 1Mós 15.1-6
Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: „Óttast þú ekki, Abram. Ég er skjöldur þinn. Laun þín munu mjög mikil verða.“
Abram svaraði: „Drottinn Guð! Hvað getur þú gefið mér? Ég fer héðan barnlaus og erfingi húss míns verður Elíeser frá Damaskus.“ Og enn fremur mælti hann: „Sjá, þú hefur ekki gefið mér neitt afkvæmi og húskarl minn mun erfa mig.“ Þá kom orð Drottins aftur til Abrams: „Ekki mun hann erfa þig heldur sá sem af þér mun getinn verða. Hann skal erfa þig.“
Þá leiddi hann Abram út fyrir og mælti: „Líttu til himins og teldu stjörnurnar ef þú getur.“ Og hann sagði: „Svo margir munu niðjar þínir verða.“ Og Abram trúði Drottni og hann reiknaði honum það til réttlætis.
Pistill: 1Pét 5.5c-11
„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.
Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.
Guðspjall: Matt 6.24-34
Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?
Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.
Sálmur: 34
Upp, skapað allt í heimi hér,
að heiðra Guð, vorn Drottin,
hið minnsta verk hans mikið er,
um mátt hans allt ber vottinn.
Þótt kóngar fylgdust allir að
með auð og veldi háu,
þeir megnuðu’ ei hið minnsta blað
að mynda’ á blómi smáu.
Hvað get ég sagt? Ó, málið mitt
ei megnar, Guð, að lýsa,
hve margt er ástarundur þitt,
hve öflug stjórnin vísa.
Ó, miklið Guð, þér menn á jörð,
á málum óteljandi,
ó, mikla Guð, þú hólpin hjörð
á himna dýrðarlandi.
Brorson – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson