Hvítasunnudagur Kirkja Heilags anda.
Litur: Rauður.Vers vikunnar:
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)
Kollekta:
Guð sem hefur uppfrætt hjörtu trúaðra með ljósi þíns heilaga anda: Veit okkur í sama anda þinum að vita hið rétta og ávallt gleðjast af heilagri huggun hans. Fyrir son þinn Jesú Krist, bróður okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jóel 3.1-5
Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.
Synir yðar og dætur munu spá,
gamalmenni yðar mun dreyma drauma
og ungmenni yðar munu fá vitranir,
jafnvel yfir þræla og ambáttir
mun ég úthella anda mínum á þeim dögum.
Og tákn mun ég láta verða á himni og jörð:
blóð, eld og reykjarstróka.
Sólin verður myrk
og tunglið sem blóð
áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og ógurlegi.
En hver sem ákallar nafn Drottins
verður hólpinn.
Á Síonarfjalli og í Jerúsalem
munu nokkrir lifa af
eins og Drottinn hefur heitið.
Hver sem ákallar nafn Drottins
mun frelsast.
Pistill: Post 2.1-4 (-11)
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
(Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)
Guðspjall: Jóh 14.23-31a
Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.
Sálmur: 165
Skín á himni skír og fagur
hinn skæri hvítasunnudagur,
er dregur nafn af Drottins sól,
dagurinn, er Drottins andi
af dýrðarinnar björtu landi
hér steig á hels og harma ból.
Því syngjum sigurlag
og signum þennan dag.
Drottins andi,
oss heill veit þá,
að himnum á
vér hátíð slíka megum sjá.
Fyrstu vinir sjálfs Guðs sonar
þeir sátu milli ótta’ og vonar
á þessum Drottins degi fyr,
allir þó með einum huga,
sem engin þrenging kunni buga,
og andans biðu öruggir.
Með einum huga enn
svo allir séu menn.
Einn sé andi
og ein sé lund
um alla stund,
og ein sé von um gleðifund.
Skyndilega heyrðist hvinur,
sem hvasst er veður yfir dynur,
og fyllti húsið fljótt hjá þeim.
Drottins anda kærleikskraftur
svo kemur mörgum sinnum aftur
hann fyllir enn upp allan heim.
Ef þungt hann andar á,
þá ekkert standast má,
en hann andar
þá aftur blítt
og hægt og hlýtt
og hjartað gjörir milt og þýtt.
Liðu tákn í lofti skæru,
sem leifturtungur bjartar væru,
og settust yfir sérhvern þar.
Tungur enn með leiftri ljóma
og lofstír Drottins þöglar róma
hans veldi’ og dýrð til vegsemdar.
Hvert lauf í lágum dal,
hvert ljós í himnasal
eru tungur,
er tala hátt,
þótt hafi lágt,
um Herrans speki, gæsku’ og mátt.
Allir fylltust anda hreinum,
Guðs andi kenndi lærisveinum
að tala ókunn tungumál.
Fyll þú brjóst vor, friðarandi,
og fjötrum svipt og sterku bandi
af vorri tungu, vorri sál.
Ó, lát þinn lausnarkraft
vort leysa tunguhaft.
Allar tungur
með allan mátt
á allan hátt
þér alla vegsemd rómi hátt.
Valdimar Briem