28. desember Barnadagurinn (Dagur hinna saklausu barna )
Vers dagsins:
Dýr er í augum Drottins dauði dýrkenda hans.
Ég færi þér þakkarfórn, ákalla nafn Drottins. (Sálm. 116.15.,17.)
Kollektan (les kollekta )
Órannsaklegir eru vegir þínir Drottinn Guð. Ljós náðar þinnar er gjört að myrkri, með órétti og ofbeldi. Börn falla fyrir sverði illsku og grimmdar. Jafnvel þau sem þú hefur sett til að gæta þeirra granda þeim eða vinna þeim tjón. Opna augu okkar og leyfðu okkur að sjá þig og þína huldu vegi, þegar hin jarðnesku augu greina ekkert nema böl og hörmung sem við skiljum ekki. Leyfðu okkur að hvíla örugg í fami þínum í fullu trausti til þín svo að við megum í kærleika fylgja Jesú Kristi sem blessar börnin og græðir sárin og gaf líf sitt í dauðann fyrir þau öll og fyrir okkur öll. Þess biðjum við í nafni hans, Því að hann er Drottinn, hann er bróðir okkar og frelsari sem lifir og ríkir að eilífu með þér og heilögum anda Amen.
Lexían Jer 31, 15-17
Svo segir Drottinn:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börn sín,
hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna
því að þau eru ekki framar lífs.
Svo segir Drottinn:
Hættu að gráta,
haltu aftur af tárum þínum
því að þú færð umbun erfiðis þíns,
segir Drottinn:
Þeir snúa aftur heim úr landi fjandmannanna.
Niðjar þínir eiga von,
segir Drottinn,
því að börn þín koma aftur heim til lands síns.
Opb. 12. 1-6
Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum. Hún var þunguð og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum.
Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt. Hún fæddi son, sveinbarn sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans. En konan flýði út á eyðimörkina þar sem Guð hefur búið henni stað og þar sem séð verður fyrir þörfum hennar í eitt þúsund og tvö hundruð og sextíu daga.
Guðspjallið Matt. 2. 13 – 18.
Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“ Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum. Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta,
því að þau eru ekki framar lífs.
Sálmur Sb 60
Í Rama heyrðist harmakvein
og hertekinna sorgarvein.
Þeir grétu sárt af sínum hag.
Við sama stendur enn í dag,
því grimmdarstríð og styrjöld hörð
er stöðugt enn á vorri jörð.
Sem Heródes er heimurinn,
svo herradóm hann elskar sinn,
að sakleysið og sannleikann
hann sviptir lífi, nær sem kann,
og til þess vald sitt viðhaldist,
hann vill, ef gæti, deyða Krist.
Sem Rakel kristin kirkja þrátt
enn kveinar mædd og grætur hátt;
þótt sjaldan böðla sverðin reidd
hún sjái nú og börn sín deydd,
má hún þó óttast illan heim,
því enn þá vill hann granda þeim.
Lát huggast, þú vor móðir mædd,
þótt margt þér ógni, vert ei hrædd;
þótt heimsins geisi bræði byrst,
hans brögð og grimmd ei deyðir Krist.
Nei, Kristur lifir, vel þig ver
og vígi börnum þínum er.
Sem brúði sína hann þig heim
til himins leiða vill með þeim;
þar sér þú börn þín særðu grædd
og sigurskrúða ljóssins klædd;
þar hræðir þig ei hætta nein,
né harmadalsins Ramakvein.
Helgi Hálfdánarson