1. sunnudagur eftir þrettánda Skírn Jesú
1. sunnudagur eftir þrettánda Skírn Jesú
Litur: Hvítur
Vers vikunnar:
„Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14)
Bæn dagsins / kollektan
Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn; að hann er ljós heimsins,
takmark þess sem leitar og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans
með börnin okkar og okkur sjálf og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og
fylgja honum að eilífu Amen.
Þriðja textaröð
Lexían Jós. 3:5-11, 17
Þá sagði Jósúa við fólkið:
„Helgið ykkur því að á morgun mun Drottinn vinna kraftaverk á meðal ykkar.“ Því næst
sagði Jósúa við prestana: „Hefjið sáttmálsörkina upp og haldið af stað á undan fólkinu.“ Þá
hófu þeir sáttmálsörkina upp og gengu á undan fólkinu.
Drottinn sagði þá við Jósúa:
„Í dag tek ég að upphefja þig í augum alls Ísraels svo að hann komist að raun um að ég verð
með þér eins og ég var með Móse. En bjóð þú prestunum sem bera sáttmálsörkina: Þegar þið
eruð komnir að Jórdan skuluð þið nema staðar úti í ánni.“ Því næst ávarpaði Jósúa
Ísraelsmenn:
„Komið hingað og hlustið á boðskap Drottins, Guðs ykkar.“ Síðan sagði hann: „Þannig
skuluð þið komast að raun um að lifandi Guð er meðal ykkar og hann mun ryðja Kanverjum,
Hetítum, Hevítum, Peresítum, Gírgasítum, Amorítum og Jebúsítum úr vegi ykkar.
Sáttmálsörk Drottins allrar jarðar fer nú fyrir ykkur yfir Jórdan.Veljið nú tólf menn úr
ættbálkum Ísraels, einn mann úr hverjum ættbálki. Jafnskjótt og fætur prestanna sem bera
sáttmálsörk Drottins, sem er Drottinn allrar veraldar, snerta vatn Jórdanar mun vatn árinnar
skiptast og vatnið, sem rennur ofan að, standa sem veggur.“
Þegar fólkið hélt af stað úr tjöldum sínum til þess að fara yfir Jórdan fóru prestarnir, sem báru
sáttmálsörkina, fyrir fólkinu.
Prestarnir, sem báru sáttmálsörk Drottins, stóðu föstum fótum á þurru, mitt í Jórdan, á meðan
allur Ísrael fór yfir ána þurrum fótum, þar til öll þjóðin var komin yfir Jórdan.
Pistill Heb. 10:19-24
Vegna þess að Jesús úthellti blóði sínu megum við nú, systkin,[ með djörfung ganga inn í hið
heilaga. Þangað vígði hann okkur veginn, nýjan veg lífsins inn í gegnum fortjaldið sem er
líkami hans.Við höfum mikinn prest yfir húsi Guðs. Göngum því fram fyrir Guð með
einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum sem hreinsuð hafa verið og eru laus við
meðvitund um synd, og með líkömum sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni. Höldum fast við
játningu vonar okkar án þess að hvika því að trúr er sá sem fyrirheitið hefur gefið.Gefum
gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka.
Guðspjallið Lúk. 3:15-17, 21-22
Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera
Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér
er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með
heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn
og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
Er allt fólkið lét skírast var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gerði bæn sína, að
himinninn opnaðist og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og
rödd kom af himni: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“[
Sálmur Sb 79
Andi Guðs sveif áður fyr
yfir vatna djúpi.
Upp þá lukust ljóssins dyr,
létti´ af myrkra hjúpi.
Upp reis jörðin ung og ný,
árdags geislum böðuð í,
þá úr dimmu djúpi.
Andi Guðs sveif annað sinn
yfir vatni köldu,
þegar lét sig lausnarinn
lauga´ í Jórdans öldu.
Opnast himinn, eins og nýtt
upp rann náðarljósið blítt
dauða´ úr djúpi köldu.
Andinn svífur enn sem fyr
yfir vatni tæru,
opnast himins dýrðardyr
Drottins börnum kæru.
Eftir skírnar blessað bað
blómið upp vex nýdöggvað
lífs í ljósi skæru.
Sb. 1886 - Valdimar Briem