15. sunnudagur eftir trinitatis: Jarðnesk gæði / Eitt er nauðsynlegt
15. sunnudagur eftir trinitatis:
Jarðnesk gæði / Eitt er nauðsynlegt
Litur grænn
Varpið allrir áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.
1.Pet. 5,7.
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn Guð, verndari allra sem á þig vona, við biðjum þig: Léttu af okkur áhyggjunum um
framtíð okkar og kenndu okkur að horfa til þín og treysta gæsku þinni allar stundir fyrir son
þinn Jesú Krist. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían 2. Mós. 1- 8.
Þegar mönnum varð ljóst að Móse seinkaði ofan af fjallinu þyrptust þeir að Aroni og sögðu
við hann: „Komdu og búðu til guð handa okkur sem getur farið fyrir okkur því að við vitum
ekki hvað varð um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út af Egyptalandi.“Aron sagði
við þá: „Slítið gullhringana úr eyrum kvenna ykkar, sona og dætra og færið mér.“ Þá sleit allt
fólkið gullhringana úr eyrum sér og færði Aroni. Hann tók við þeim úr höndum þeirra,
bræddi og steypti úr þeim kálf. Þá sagði fólkið: „Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af
Egyptalandi.“
Þegar Aron sá þetta reisti hann altari fyrir framan kálfinn. Síðan hrópaði hann og sagði: „Á
morgun verður Drottni haldin hátíð.“Morguninn eftir voru þeir snemma á fótum, færðu
brennifórnir og leiddu fram dýr til heillafórna. Því næst settist fólkið til að eta og drekka og
stóð síðan upp til að skemmta sér.
Þá sagði Drottinn við Móse: „Farðu niður eftir því að þjóð þín, sem þú leiddir út af
Egyptalandi, hefur steypt sér í glötun. Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi sem ég bauð þeim.
Þeir hafa steypt sér kálf, fallið fram fyrir honum, fært honum sláturfórnir og sagt: Þetta er guð
þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.“
Pistill 1. Tím. 6. 6-12 6
Já, trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Því að ekkert höfum við inn í heiminn flutt
og ekki getum við heldur flutt neitt út þaðan.
Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja. En þeir sem ríkir vilja verða falla í
freistni og lenda í snöru alls kyns óviturlegra og skaðlegra fýsna er sökkva mönnunum niður í
tortímingu og glötun.
Fégirndin er rót alls ills. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér
mörgum harmkvælum. En þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú,
kærleika, stöðuglyndi og hógværð.
Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið sem þú varst kallaður til og þú játaðist
með góðu játningunni í viðurvist margra votta.
Guðspjall Lúk. 18.28-30
Þá sagði Pétur: „Við yfirgáfum allt sem við áttum og fylgdum þér.“ Jesús sagði við þá:
„Sannlega segi ég yður að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn
vegna Guðs ríkis án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi
eilíft líf.“
Sálmur Sb 590
Vort líf er oft svo örðug för
og andar kalt í fang,
og margur viti villuljós
og veikum þungt um gang.
En Kristur segir: Kom til mín,
og krossinn tekur vegna þín.
Hann ljær þér bjarta sólarsýn,
þótt syrti' um jarðarvang.
Og hafi eitthvað angrað þig
og að þér freisting sótt,
þá bið þú hann að hjálpa þér,
og hjálpin kemur skjótt.
Hans ljós á vegum lýðsins brann.
Hann leiða þig til sigurs kann.
Hin eina trausta hjálp er hann
á harmsins myrku nótt.
Já, mundu' að hann á mátt og náð,
þú maður efagjarn,
sem aldrei bregst, þótt liggi leið
þíns lífs um auðn og hjarn.
Frá syndum frelsuð sál þín er,
því sjálfur Kristur merkið ber
hvert fótmál lífsins fyrir þér.
Ó, fylg þú honum, barn.
Kristján Einarsson frá Djúpalæk