1. sunnudagur í níuviknaföstu (septuagesimae)
1. sunnudagur í níuviknaföstu (septuagesimae)Laun og náð
Vers vikunnar:
„Vér biðjum þig í auðmýkt, ekki vegna verðskuldunar vor sjálfra, heldur í trausti mikillar miskunnar þinnar. “ (Dan 9.18b)
Kollekta:
Við biðjum þig, Drottinn: Heyr bænir okkar og frelsa okkur frá öllum syndum okkar þínu nafni til dýrðar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 5M 8.7,10-11, 17-18
Drottinn, Guð þinn, mun leiða þig inn í gott land, inn í land með lækjum, lindum og uppsprettum sem streyma fram í dölum og á fjöllum,
Þegar þú hefur etið og ert orðinn mettur skaltu lofa Drottin, Guð þinn, fyrir landið góða sem hann hefur gefið þér. Gæt þess þá að þú gleymir ekki Drottni, Guði þínum, og hættir að hlýða boðum hans, ákvæðum og lögum sem ég set þér í dag.
Þú skalt ekki hugsa með þér: „Ég hef aflað þessara auðæfa með eigin afli og styrk handar minnar.“ Minnstu heldur Drottins, Guðs þíns, því að það var hann sem gaf þér styrk til að afla auðs til þess að standa við sáttmálann sem hann sór feðrum þínum eins og hann gerir enn í dag.
Pistill: 1Kor 3.10-15
Sem vitur byggingameistari hef ég lagt grundvöll eftir þeirri náð sem Guð hefur veitt mér en annar hefur byggt ofan á. En sérhver athugi hvernig hann byggir. Annan grundvöll getur enginn lagt en þann sem lagður er, sem er Jesús Kristur. En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm, þá mun koma í ljós hvernig verk hvers og eins er. Dagurinn mun leiða það í ljós af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. Ef það fær staðist sem einhver byggir ofan á mun hann fá laun. En brenni það upp mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann komast af en þó eins og úr eldi.
Guðspjall: Matt 25.14-30
Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.
Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.
Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.