Sunnudagur milli nýárs og þrettánda Í vernd Guðs / Guðs hús
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar: Jóh 1.14b
Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.
Kollekta:
Eilífi Guð og faðir gæskunnar. Allt frá fyrstu bernsku lofaði sonurinn þig. Við biðjum:Lát okkur á öllum vegum þessa nýja árs vaxa í þekkingunni og kærleikanum með syni þínum Jesú Kristi bróður okkar og Drottni sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir um eilífð
Lexía: Slm 42.2-3
Eins og hindin þráir vatnslindir
þráir sál mín þig, ó Guð.
Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,
hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?
Pistill: Róm 12.1-5
Því brýni ég ykkur, systkin,[ að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.
Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.
Guðspjall: Lúk 2.41-52
Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.
Sálmur: 108
Ó, hve dýrleg er að sjá
alstirnd himinfesting blá,
þar sem ljósin gullnu glitra,
glöðu leika brosi’ og titra
:,: og oss benda upp til sín. :,:
Nóttin helga hálfnuð var,
huldust nærfellt stjörnurnar,
þá frá himinboga’ að bragði
birti’ af stjörnu’, um jörðu lagði
:,: ljómann hennar sem af sól. :,:
Þegar stjarna’ á himni hátt
hauður lýsir miðja’ um nátt,
sögðu fornar sagnir víða,
sá mun fæðast meðal lýða,
:,: konunga sem æðstur er. :,:
Vitringar úr austurátt
ei því dvöldu’, en fóru brátt
þess hins komna kóngs að leita,
kóngi lotning þeim að veita,
:,: mestur sem að alinn er. :,:
Stjarnan skær þeim lýsti leið,
leiðin þannig varð þeim greið,
uns þeir sveininn fundu fríða.
Fátæk móðir vafði’ hinn blíða
:,: helgri’ í sælu’ að hjarta sér. :,:
Stjarnan veitt oss einnig er,
og ef henni fylgjum vér,
hennar leiðarljósið bjarta
leiða’ um jarðar húmið svarta
:,: oss mun loks til lausnarans. :,:
Villustig sú aldrei á
undrastjarnan leiðir há,
orðið Guðs hún er hið skæra,
oss er Drottinn virtist færa,
:,: svo hún væri’ oss leiðarljós. :,:
Grundtvig – Sb. 1886 – Stefán Thorarensen