4. sunnudagur eftir páska (Kantate) Syngjandi söfnuður. Að vaxa í trú.
4. sunnudagur eftir páska (Kantate)Syngjandi söfnuður. Að vaxa í trú.
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
„Syngið Drottni nýjan söng því að hann hefur unnið dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og heilagur armur hans.“ (Slm 98.1)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð sem gerir þau öll sem á þig trúa samhuga, við biðjum þig: Kenn okkur að elska það sem þú býður og þrá það sem þú heitir svo að hjörtu okkar megi í öllum umskiptum þessa heims vera staðföst þar sem er hinn sanni fögnuður. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Tob 13.1-5, 8
Þá bað Tóbít:
Lofaður sé lifandi Guð að eilífu,
lofað sé ríki hans.
Hann agar en miskunnar einnig,
leiðir til heljar niður í jarðardjúp
en hrífur einnig úr gereyðingunni.
Enginn fær umflúið hönd hans.
Þakkið honum, Ísraelsmenn, í augsýn heiðingjanna.
Meðal þeirra dreifði hann yður.
Þar sýndi hann mátt sinn.
Vegsamið hann frammi fyrir öllum lifendum
því að hann er Drottinn vor,
Guð vor og faðir vor.
Hann er Guð um aldir alda.
Hann mun hirta yður vegna ranglætis yðar,
en hann mun einnig miskunna yður
og leiða yður aftur frá þjóðunum öllum
sem yður var dreift á meðal.
Allir skulu tala um stórvirki hans
og syngja honum lof í Jerúsalem.
Pistill: 1Jóh 4.10-16
Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.
Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.
Guðspjall: Jóh 15.12-17
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hvert annað eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini því ég hef kunngjört yður allt sem ég heyrði af föður mínum. Þér hafið ekki útvalið mig heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt sem varir svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. Þetta býð ég yður, að þér elskið hvert annað.