2. sunnudagur í föstu (Reminiscere) Trúarbaráttan / Gefinn mönnum á vald /
Vers vikunnar:
„En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Róm 5.8)
Kollekta:
Drottinn Guð. Þú veist, að við megnum ekkert af sjálfum okkur. Varðveit okkur hið ytra og innra, ver okkur vernd og skjól gegn öllu því, sem saurgar hug og hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: 1Mós 32.24-30
Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“
Pistill: Jak 5.13-16
Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.
Guðspjall: Matt 15.21-28
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.
Sálmur: 98
„Þín trú er mikil“ mælti hann,
sem meinin þyngstu bæta kann,
,,því skal sú hjálpin hlotnast þér,
sem hjartans ósk þín kærust er”.
Um aldir streymir náð, æ ný,
frá náðarorði dýru því,
að hugga sálir hörmum í.
Hið sama jafnan orð hans er,
ef öflga trú í brjósti sér
og hjarta manns svo auðmjúkt, að
sér enga læging heldur það
að tína minnstu mola þá,
er miskunn hans það lætur fá
til blessunar hans borði frá.
Af brauði lífs í heimi hér
frá himni gnóttir öðlumst vér,
er sjúkum létta sálum neyð,
og syndir lækna’ og bægja deyð.
Ef trúarhönd þeim tekur mót,
vér tímans stöndumst öldurót
og beitt ei hræðumst banaspjót.
Vor góði Jesús óskar, að
vér allir höndlað fáum það,
sem allra gæða er æðst og best
og allra heillir styður mest.
Hann býður sjálfan sig, það brauð,
er sálna bætir hungursnauð.
Það lífsbrauð hjörtu lífgar dauð.
N.F.S. Grundtvig – Helgi Hálfdanarson