Aðfangadagur páska – páskavaka – Laugardagur fyrir páska – Hinn heilagi hvíldardagur – (Sabbatum sanctum)
Aðfangadagur páska – páskavaka – Laugardagur fyrir páska – Hinn heilagi hvíldardagur – (Sabbatum sanctum)Íhugunarefni laugardags í dymbilviku er : Jesús dvelur í gröf sinni. Þessi dagur hefur frá fornu fari engan lit í reglum um kirkjuliti.
Kollekta:
Drottinn Jesús Kristur, þú sem ert dáinn og grafinn okkar vegna ert stiginn niður til Heljar í ríki dauðans til sigra dauðann að eilífu. Við sem erum skírð til dauða þíns. biðjum þig: Ver þú kraftur í okkur til þess hið spillta, synduga eðli deyi daglega og við fyrir gröf þína og dauða megum eignast með þér sigur upprisinnar. Lof sé þér um aldur og að eilífu. Amen.
Lexía Hlj 3.51-62
Það sem auga mitt lítur kvelur mig
vegna allra dætra borgar minnar.
Þeir sem voru óvinir mínir án tilefnis
hafa elt mig eins og fugl.
Þeir reyndu að granda mér í gryfju
og köstuðu steinum á mig.
Vatn flóði yfir höfuð mitt,
ég hugsaði: „Það er úti um mig.“
Ég ákallaði nafn þitt, Drottinn,
úr djúpi gryfjunnar.
Þú heyrðir hróp mitt: „Byrg ekki eyra þitt
fyrir ákalli mínu um hjálp.“
Þú nálgaðist mig þegar ég hrópaði til þín,
sagðir: „Óttast ekki!“
Þú varðir, Drottinn, málstað minn,
leystir líf mitt.
Þú hefur, Drottinn, séð óréttinn sem ég er beittur,
rétt þú hlut minn.
Þú hefur séð hefndarþorsta þeirra,
allt ráðabrugg þeirra gegn mér,
þú hefur heyrt háðsyrði þeirra, Drottinn,
allt ráðabrugg þeirra gegn mér,
sífellt hljóðskraf andstæðinga minna
og ráðagerðir þeirra gegn mér.
Pistill: 1Pét 3.18-22
Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Guðspjall: Matt 27.62-66
Næsta dag, hvíldardaginn, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“
Pílatus sagði við þá: „Hér hafið þið varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þið kunnið.“
Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.