16. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Hin sterka huggun / Dauðinn og lífið
Litur: Grænn.Vers vikunnar: 2Tím 1.10b
Jesús Kristur afmáði dauðann en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.
Kollekta:
Drottinn, við biðjum þig: Lát náð þína ávallt fara fyrir okkur og fylgja okkur eftir og vekja í okkur vilja og mátt til allra góða verka. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 26.16-19
Drottinn, í neyðinni leituðum vér þín,
í þrengingunum, þegar þú refsaðir oss, hrópuðum vér til þín.
Eins og þunguð kona, komin að því að fæða,
hefur hríðir og hljóðar af kvölum,
eins vorum vér frammi fyrir þér, Drottinn.
Vér vorum þunguð, fengum hríðir
en það sem fæddist var sem vindur.
Vér færðum jörðinni enga hjálp,
engir jarðarbúar fæddust.
Menn þínir, sem dánir eru, munu lifna,
lík þeirra rísa upp.
Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna.
Þar sem dögg þín er dögg ljóssins
mun jörðin fæða þá sem dánir eru.
Pistill: Ef 3.13-21
Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.
Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.
Guðspjall: Lúk 7.11-17
Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.
Sálmur: 194
Guðs son mælti: “Grát þú eigi”,
gæskuríkur, er hann sá
ekkju, sem hans varð á vegi,
vafin sorgum Nain hjá.
Þegar hryggðin hjartað sker,
huggun orð þau veita mér.
Ef ég stríð við örbirgð heyi
eða skortur hrellir mig,
Guðs son mælir: “Grát þú eigi,
Guði víst er annt um þig,
hann, sem fæðir unga smá,
fyrir þér mun einnig sjá.
Ef ég sjúkleik þjáður þreyi,
þungt ef styn ég dag og nátt,
Guðs son mælir: “Grát þú eigi,
græða vil ég sár þín brátt.
Gegnum neyð þér þér ætlað er
inn að ganga’ í dýrð hjá mér.
Ef mér þrátt á ævidegi
óvild sýnir heimurinn,
Guðs son mælir:,,Grát þú eigi,
gæt þess, ég er vinur þinn,
heims ég líka hatur bar,
hugrór þó og glaður var”.
Ef á mínum ævivegi
ástvinum ég sviptur er,
Guðs son mælir: “Grát þú eigi,
geymdir eru þeir hjá mér.
Aftur gefa þér skal þá,
þar sem hel ei granda má.”
Ef á hinstum ævidegi
ógnir dauðans hrella mig,
Guðs son mælir: ,,Grát þú eigi,
glötun frá ég leysti þig.
Guðs barn, lát þig gleðja það,
Guði hjá ég bjó þér stað”.
Höfel – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson