17. sunnudagur eftir trinitatis: Sigrandi trú / Auðug fyrir Guði
17. sunnudagur eftir trinitatis:
Sigrandi trú / Auðug fyrir Guði
Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn. 1.Jóh.5, 4c.
Litur grænn
Bæn dagsins / kollektan
Guð, þú sem hlustar. Við treystum því að þú heyrir bænir okkar. Hjálpa þú okkur að taka það
alvarlega sem við biðjum um. Kenndu okkur að ganga fram fyrir auglit þitt í hógværð og
einlægni og einurð. Í Jesú nafni. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexia. Pred. 3.1-13
Öllu er afmörkuð stundog sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.
Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma,
að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp hið gróðursetta hefur sinn tíma,
að deyða hefur sinn tíma og að lækna hefur sinn tíma,
að rífa niður hefur sinn tíma og að byggja upp hefur sinn tíma,
að gráta hefur sinn tíma og að hlæja hefur sinn tíma,
að harma hefur sinn tíma og að dansa hefur sinn tíma,
að kasta steinum hefur sinn tíma og að tína saman steina hefur sinn tíma,
að faðmast hefur sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefur sinn tíma,
að leita hefur sinn tíma og að týna hefur sinn tíma,
að geyma hefur sinn tíma og að fleygja hefur sinn tíma,
að rífa sundur hefur sinn tíma og að sauma saman hefur sinn tíma,
að þegja hefur sinn tíma og að tala hefur sinn tíma,
að elska hefur sinn tíma og að hata hefur sinn tíma,
stríð hefur sinn tíma og friður hefur sinn tíma.
Hvaða gagn hefur verkamaðurinn af öllu striti sínu?
Ég virti fyrir mér þá þraut sem Guð hefur fengið mönnunum að þreyta sig á. Allt hefur hann
gert hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefur hann lagt í brjóst þeirra en maðurinn fær
ekki skilið að fullu það verk sem Guð vinnur. Ég sá að ekkert hugnast þeim betur en að vera
glaðir og njóta lífsins meðan það endist. En að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu,
einnig það er Guðs gjöf.
Pistillinn Róm. 14. 14-19
Það veit ég með fullri vissu í trúnni á Drottin Jesú að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér nema þá
þeim sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt. Ef bróðir þinn eða
systir hryggist sökum þess sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með
mat þínum í glötun þeim manni sem Kristur dó fyrir.
Látið því ekki hið góða sem þið eigið verða fyrir lasti. Guðs ríki er ekki matur og drykkur
heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda. Hver sem þannig þjónar Kristi er Guði
velþóknanlegur og í metum hjá mönnum.
Keppum þess vegna eftir því sem til friðar heyrir og eflir samfélagið.
Guðspjall Mark 2. 15-17
Svo bar við að Jesús sat að borði[ í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu
þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea,
sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina
hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“
Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir
eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“
Sálmur Sb 507
Af því hann kom og var sem morgunroðinn
og rauf Guðs þögn og ótta manns við dauðann,
af því hann bæði í orðum og í gjörðum
fékk opnað nýja leið til himnasala.
Af því hann var Guðs son og einn af okkur
og gekk um kring, um götur og um garða,
af því hann lét hinn síðsta verða fyrstan
og færði blindum sýn og hjörtum huggun.
Viðlag: Við getum haldið út á vondum tíðum
og vitum Guð er nærri er við líðum
því má hin svikna von sem sólin rísa
nú sjáum við að ríki Guðs mun lýsa.
Sjá, Guð er hér!
Af því hann velti um borðum víxlaranna
og við þeim tók sem aðrir höfðu hafnað.
Af því hann brosti þegar börnin sungu
og breiddi út líf sem margir ekki sáu.
Af því hann tæmdi bikarinn hinn beiska
sem barmafullur var af illskugalli
og bar sinn kross og allar okkar syndir,
en dauði hans fær boðað lífið nýja.
Af því að gröf í garði sprengd var opin
og broddur dauðans brotinn var þann morgun,
af því þær fréttir megnar enginn stöðva
þar flæða fram í söngvum, orði og dansi.
Af því hans andi lætur hjörtun bráðna
og lítill gustur alla múra falla,
af því með honum aldna dreymir drauma
og hina ungu langar til að lifa.
Frederico J. Pagura Kristján Valur Ingólfsson