6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð . Líf í skírnarnáð
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„En nú segir Drottinn svo, sá sem skóp þig, Jakob, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.“ (Jes 43.1)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, sem gefur allt hið góða: Gróðurset í hjörtu okkar kærleik til þíns heilaga nafns og veit vöxt í trúnni svo að þú megir efla allt gott í okkur og varðveita af föðurelsku þinni það sem þú lífgar og styrkir. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 43.1-7
En nú segir Drottinn svo,
sá sem skóp þig, Jakob,
og myndaði þig, Ísrael:
Óttast þú ekki því að ég frelsa þig,
ég kalla á þig með nafni,
þú ert minn.
Gangir þú gegnum vötnin
er ég með þér,
gegnum vatnsföllin,
þá flæða þau ekki yfir þig.
Gangir þú gegnum eld
skalt þú ekki brenna þig
og loginn mun ekki granda þér.
Því að ég, Drottinn, er Guð þinn,
ég, Hinn heilagi Ísraels, frelsari þinn.
Ég læt Egyptaland í lausnargjald fyrir þig,
Kús og Seba í þinn stað,
þar sem þú ert dýrmætur í augum mínum,
mikils metinn og ég elska þig.
Ég legg menn í sölurnar fyrir þig
og þjóðir fyrir líf þitt.
Óttast þú ekki
því að ég er með þér.
Ég mun flytja niðja þína úr austri
og safna þér saman úr vestri.
Ég segi við norðrið: „Slepptu þeim,“
og við suðrið: „Lát þá lausa.
Komdu með syni mína heim úr fjarlægð
og dætur mínar frá endimörkum jarðar,
sérhvern þann sem við nafn mitt er kenndur,
því að ég hef skapað hann mér til dýrðar,
myndað hann og mótað.“
Pistill: Róm 6.3-11
Eða vitið þið ekki að við öll, sem skírð erum til Krists Jesú, erum skírð til dauða hans? Við erum því dáin og greftruð með honum í skírninni. Og eins og faðirinn vakti Krist frá dauðum með dýrðarmætti sínum, eins eigum við að lifa nýju lífi.
Fyrst við erum samgróin honum með því að deyja líkt og hann eigum við einnig að vera samgróin honum með því að rísa upp líkt og hann. Við vitum að okkar gamli maður dó með honum á krossi til þess að líkami syndarinnar yrði að engu og við værum aldrei framar þrælar syndarinnar. Dauður maður er leystur frá syndinni.
Ef við erum dáin með Kristi trúum við því að við munum og með honum lifa. Við vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum. Með dauða sínum dó hann frá syndinni í eitt skipti fyrir öll en lífi sínu lifir hann Guði. Þannig skuluð og þið álíta sjálf ykkur vera dáin frá syndinni en lifandi Guði í Kristi Jesú.
Guðspjall: Matt 28.18-20
Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“
Sálmur 349
Ég grundvöll á, sem get ég treyst,
því Guð minn lagt hann hefur
af elsku' og náð, sem ei fær breyst
og óverðskuldað gefur.
Að boði hans ég borinn var
að bjartri laug og skírður þar
af orði hans og anda.
Á höfuð mitt og hjarta var
hans helgi kross þá ristur
sem augljóst tákn þess, að mig þar
til eignar tæki Kristur,
því keypt hann hefði' á krossi mig
og knýtt með þeirri fórn við sig
og nú á ný mig fæddi.
Hve gott að eiga grundvöll þann,
þá guðlaus vantrú hræðir,
að sjálfur Drottinn verkið vann,
sem veikan endurfæðir.
Ég, allslaust barn, gat ekki neitt,
en eilíft líf af náð var veitt,
mitt nafn í lífsbók letrað.
Bjarni Eyjólfsson