17. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Sigrandi trú / Auðug fyrir Guði
17. sunnudagur eftir þrenningarhátíðSigrandi trú / Auðug fyrir Guði
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. (Ef 4.2)
Kollekta:
Drottinn Guð, við biðjum þig: Hjálpa okkur að forðast öll áhrif hins vonda, leita þín hreinum huga og lifa þér einum sönnum Guði. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 1.16-17
Þvoið yður! Hreinsið yður!
Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum.
Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar.
Pistill: Post 3.1-10
Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn. Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu. Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: „Lít þú á okkur.“ Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. Pétur sagði: „Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. Menn könnuðust við að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því sem fram við hann hafði komið.
Guðspjall: Mrk 9.17-29
En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“
Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“
Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.
Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“
Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“
Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“
Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“
Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“
Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur.
Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“
Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“