Mikjálsmessa og allra engla
Litur Hvítur
Vers dagsins :
Engill Drottins setur vörð kringum þá sem óttast hann og frelsar þá. Sálm.34.8
Kollektan
Drottinn Guð. Á undursamlegan hátt tekur þú engla og menn í þína þjónustu til þess að fullkomna verk þitt. Við biðjum þig, sýn mátt þinn í lífi okkar svo að við megum jafnt á góðum sem vondum tímum njóta aðstoðar engla þinna. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar. A Amen
Lexían Sálm 103.17-22
En miskunn Drottins við þá er óttast hann
varir frá eilífð til eilífðar
og réttlæti hans nær til barnabarnanna,
þeirra er varðveita sáttmála hans
og muna að breyta eftir boðum hans.
Drottinn hefur reist hásæti sitt á himnum
og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.
Lofið Drottin, þér englar hans,
þér voldugu hetjur er framkvæmið boð hans,
er þér heyrið hljóminn af orði hans.
Lofið Drottin, allar hersveitir hans,
þjónar hans er framkvæmið vilja hans.
Lofið Drottin, öll verk hans,
á hverjum stað í ríki hans.
Lofa þú Drottin, sála mín.
Pistillinn Opb. 12.7 -12
Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum.
Og ég heyrði rödd mikla á himni segja:
Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors
og veldi hans Smurða.
Því að þeim sem stóð frammi fyrir Guði dag og nótt og ákærði þau sem trúa
hefur verið steypt niður.
Og þau hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins
og fyrir orð vitnisburðar síns
og eigi var þeim lífið svo kært að þeim ægði dauði.
Fagnið því, himnar og þér sem í þeim búið.
Vei sé jörðunni og hafinu
því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð
því að hann veit að hann hefur nauman tíma..
Guðspjall Lúk. 10. 17-20
Nú komu þeir sjötíu og tveir[ aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“
Sálmur 473
1 Englar hæstir, andar stærstir,
allir lofi Drottins nafn.
Allt sem andar, allt sem lifir,
uppi, niðri, himnum yfir
dýrki, lofi Drottins nafn.
2 Himinn fagur, hver einn dagur,
hver ein nótt með stjörnusafn,
stormar, þrumur, hvað sem hræðir,
hvað sem vekur, örvar, glæðir
lofi Herrans heilagt nafn.
3 Æðstum Drottni aldrei þrotni
eilíft lof og þakkargjörð.
Syngið feður, syngið mæður,
syngið niðjar, menn og bræður.
Heiðri Drottin hæð og jörð.
John S. Blackie – Matthías Jochumsson