10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Drottinn og fólk hans / Gjafir náðarinnar
10. sunnudagur eftir þrenningarhátíðDrottinn og fólk hans / Gjafir náðarinnar
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.“ (Slm 33.12)
Kollekta:
Guð, eilífi faðir, þú sem sýnir almætti þitt helst og fremst með því að þyrma og miskunna: Auðga okkur af þinni náð svo að við sem höfum fyrirheit þitt fyrir augum megum eignast hlutdeild í himneskri blessun þinni. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 5.1-7
Ég vil kveða um ástvin minn,
ástarkvæði um víngarð hans.
Ástvinur minn átti víngarð
á frjósamri hæð.
Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið,
gróðursetti gæðavínvið.
Hann reisti turn í honum miðjum
og hjó þar þró til víngerðar.
Hann vonaði að garðurinn bæri vínber
en hann bar muðlinga.
Dæmið nú, Jerúsalembúar og Júdamenn,
milli mín og víngarðs míns.
Hvað varð meira að gert við víngarð minn
en ég hafði gert við hann?
Hví bar hann muðlinga þegar ég vonaði að hann bæri vínber?
En nú vil ég kunngjöra yður
hvað ég ætla að gera við víngarð minn:
Ég ríf niður limgerðið
svo að hann verði nagaður í rót,
brýt niður múrvegginn
svo að hann verði troðinn niður.
Ég vil gera hann að auðn,
hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp,
þar skulu vaxa þistlar og þyrnar
og skýjunum vil ég banna að vökva hann regni.
Því að víngarður Drottins er Ísraels hús
og Júdamenn ekran sem hann ann.
Hann vænti réttlætis
en sá blóði úthellt,
vænti réttvísi
en neyðaróp kváðu við.
Pistill: Róm 9.6-9, 14-18
Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn sem af Ísrael eru komnir. Ekki eru heldur allir börn Abrahams þótt þeir séu niðjar hans. Nei: „Afkomendur Ísaks munu taldir niðjar þínir.“ Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur Abrahams börn Guðs heldur þeir sem fyrirheitið hljóðar um. Guð gaf honum fyrirheit um fæðingu Ísaks þegar hann sagði: „Í þetta mund að ári kem ég aftur og þá mun Sara hafa eignast son.“
Hvað skal um þetta segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því. Hann segir við Móse: „Ég miskunna þeim sem ég vil miskunna og líkna þeim sem ég vil líkna.“ Það er því ekki komið undir vilja manns eða áreynslu heldur Guði sem miskunnar. Því er í ritningunni sagt við faraó: „Einmitt til þess hóf ég þig að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina.“ Svo miskunnar þá Guð þeim sem hann vill en forherðir þann sem hann vill.
Guðspjall: Matt 11.16-24
Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“
Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“