1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Köllun í kærleika
1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Köllun í kærleika
Vers vikunnar:
„Sá sem á yður hlýðir hlýðir á mig og sá sem hafnar yður hafnar mér.“ (Lúk 10.16a)
Litur grænn
Bæn dagsins / kollektan
Mikli Guð, sem himnarnir rúma ekki en kemur þó til okkar og ert nálægur í orði þínu, við
biðjum þig: Allt í kringum okkur eru orð. Hjálpa þú okkur að heyra þína rödd meðal allra
þeirra sem tala til okkar og vilja hafa áhrif á okkur, svo að líf okkar megi tilheyra þér og að
það sé borið uppi og mótað af kærleika þínum sem við mætum í Jesú Kristi. Þér sé lof og
dýrð að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían: Sirak. 1. 1-10
Öll speki er frá Drottni,
hjá honum er hún að eilífu.
Hver fær talið sandkorn á sjávarströnd,
dropa regns eða daga eilífðar?
Hver fær kannað hæð himins, víðáttu jarðar,
undirdjúpin eða spekina?
Fyrri öllu var spekin sköpuð,
frá eilífð voru skilningur og hyggindi.
Orð Guðs í upphæðum er lind spekinnar,
eilíf boð hans vegir hennar. [
Hverjum opinberaðist upphaf spekinnar?
Hver komst fyrir hulin rök hennar?
Hverjum opinberaðist þekking á spekinni
og hver hlaut skilning á allri reynslu hennar? [
Drottinn einn er spakur, ógurlegur mjög,
situr í hásæti sínu.
Hann er sá sem spekina skóp,
leit á hana og virti vel
og veitti henni yfir öll sín verk.
Allt sem lifir fékk hlutdeild í þeirri gjöf hans,
hann veitir þeim sem elska hann ríkulega af henni.
Post. 4. 32-37
En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera
sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu
Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn
þurfandi meðal þeirra því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með
andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann
hafði þörf til.
Jósef, Levíti frá Kýpur, sem postularnir kölluðu Barnabas, það þýðir huggunarsonur, átti
sáðland og seldi, kom með verðið og lagði fyrir fætur postulanna.
Guðspjallið Jóhs 5.39-47
Þér rannsakið ritningarnar því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær sem vitna um
mig en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
Ég þigg ekki heiður af mönnum en ég þekki yður, ég veit að þér hafið ekki í yður kærleika til
Guðs. Ég er kominn í nafni föður míns og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin
nafni tækjuð þér við honum. Hvernig getið þér trúað þegar þér þiggið heiður hver af öðrum
en leitið ekki þess heiðurs sem er frá einum Guði? Ætlið eigi að ég muni ákæra yður fyrir
föðurnum. Sá sem ákærir yður er Móse og á hann vonið þér. Ef þér tryðuð Móse munduð þér
líka trúa mér því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því sem hann skrifaði, hvernig
getið þér þá trúað orðum mínum?“
Sálmur Sb 57
1. Hver getur vakað um heimsins nótt?
Hver trúað, heims í myrkri?
Hver styður veikan og stendur vörð?
Vilja þinn, Guð, lát verða´á jörð.
Veit oss að fylgja þér, Guð.
2. Náungans byrði æ bera þarf,
bróður að sýna mildi.
Annars rétt sækja er sverfur að.
Hef upp þín tákn á hverjum stað!
Hjálpa´ oss að fylgja þér, Guð.
3. Drottinn, sem vakir um dimma nótt,
Drottinn, sem leiðir úr myrkri.
Drottinn, sem gefur oss dag og ár:
Eins þegar áföll henda sár
erum við hjá þér, ó, Guð.
Svein Ellingsen Kristján Valur Ingólfsson