Pálsmessa. 25. janúar.
18.-25.janúar Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar
Pálsmessa. 25. janúar.
Litur hvítur eða rauður.
Vers:
Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Gal.2.20
Bæn dagsins / kollektan
Guð, sem hefur með predikun þíns heilaga postula Páls uppfrætt alla heimsbyggðina, við
minnumst í dag köllunar Páls og biðjum : Lát okkur að fordæmi hans skunda til þín, fyrir
Jesú Krist, frelsara okkar og bróður. Amen
Lexía Jes. 45. 22-25
Hverfið aftur til mín og látið frelsast,
gjörvöll endimörk jarðar,
því að ég er Guð og enginn annar.
Ég hef svarið við sjálfan mig:
Af munni mínum er sannleikur út genginn,
orð sem ekki snýr aftur.
Fyrir mér skal sérhvert kné beygja sig
og sérhver tunga sverja við mig.
Sagt var um mig: Hjá Drottni einum er réttlæti og styrkur.
Allir sem hamast af heift gegn honum
munu koma fyrir hann og blygðast sín.
En hjá Drottni hljóta allir niðjar Ísraels réttlæti og fagna.
Pistill Post. 26.1-23
En Agrippa sagði við Pál: „Nú er þér leyft að tala þínu máli.“ Páll rétti þá út höndina og bar
fram vörn sína:
„Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu
því sem Gyðingar saka mig um, því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og
ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig. Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá
upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem. Það vita þeir
um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki
trúarbragða okkar. Og hér stend ég nú lögsóttur af því að ég trúi því sem Guð hét forfeðrum
vorum og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag.
Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum. Hvers vegna teljið þið það
ótrúlegt að Guð veki upp dauða?
Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret. Það gerði ég og
í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt
því jákvæði að þeir væru teknir af lífi. Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með
pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim að ég fór til
borga erlendis að ofsækja þá. Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og
umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu
bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði
rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna
móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú
ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að
þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og
heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til
ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og
arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni
himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla
Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.
Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana. En Guð hefur
hjálpað mér og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég
ekki annað en það sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi, að Kristur ætti
að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði Gyðingum og heiðingjunum ljósið.“
Guðspjallið Matt. 19. 27-30
Þá sagði Pétur við hann: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“
Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og
Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf
hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða
systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og
öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“
Sálmur Sb 494
Drottinn, Guðs sonur, sem duftið mitt bar,
dó til að lífga mitt fölskvaða skar,
reis upp af gröf svo að gæti hann mér
gefið sitt eilífa ríki með sér.
2 Kristur, í náð þinni komstu til mín,
kveiktir það ljós er mig vakti til þín,
orðið þitt varð mér að lifandi lind,
ljómaði við mér þín heilaga mynd.
3 Þú hefur játast mér eins og ég er,
augað þitt heilaga þekkir og sér
hjarta mitt, vafið í villu og tál,
vilja minn blindan og flekkaða sál.
4 Samt viltu eiga mig, allsvana barn,
eigrandi skugga um vegalaust hjarn,
sekt minni gleyma þótt særði ég þig,
sýkna og lækna og umskapa mig.
5 Trúin mín sér þig og sólin mér skín,
sála mín fagnar og brosir til þín,
vaknar sem blómið þá veturinn fer,
vegsamar lífið sem kemur með þér.
6 Frelsari heimsins, mitt hjarta er þitt,
hugsun mín, vilji og allt sem er mitt
lofi og kunngjöri kærleika þinn,
konungur, bróðir og lífgjafi minn.
Sigurbjörn Einarsson