Föstudagurinn langi
Föstudagurinn langi
Vers.
Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir
glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh, 3.16
Litur svartur eða fjólublár.
Bæn dagsins / kollektan
Jesús Kristur, við virðum fyrir okkur krossinn þinn, tákn neyðarinnar, tákn óréttlætisins, tákn
eyðileggingarinnar í skelfingu en um leið í undrun því að vegur þinn endar ekki þar. Krossinn
þinn er tákn um von og sigur því að þú lifir og ríkir um eilífð. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía Jes. 52. 13-53. 12
Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.
Hver trúði því sem oss var boðað
og hverjum opinberaðist armleggur Drottins?
Hann óx upp eins og viðarteinungur fyrir augliti Drottins,
eins og rótarkvistur úr þurri jörð.
Hann var hvorki fagur né glæsilegur ásýndum
né álitlegur svo að oss fyndist til um hann.
Hann var fyrirlitinn og menn forðuðust hann,
harmkvælamaður og kunnugur þjáningum,
líkur manni sem menn byrgja augu sín fyrir,
fyrirlitinn og vér mátum hann einskis.
En vorar þjáningar voru það sem hann bar
og vor harmkvæli er hann á sig lagði.
Vér álitum honum refsað,
hann sleginn og niðurlægðan af Guði.
En hann var særður vegna vorra synda,
kraminn vegna vorra misgjörða.
Honum var refsað svo að vér fengjum frið
og fyrir benjar hans urðum vér heilbrigðir.
Vér fórum allir villir vegar sem sauðir,
héldum hver sína leið
en Drottinn lét synd vor allra
koma niður á honum.
Hann var hart leikinn og þjáður
en lauk eigi upp munni sínum
fremur en lamb sem leitt er til slátrunar
eða sauður sem þegir fyrir þeim er rýja hann,
hann lauk eigi upp munni sínum.
Hann var fjötraður, dæmdur og leiddur burt
en hver hugsaði um afdrif hans
þegar hann var hrifinn burt af landi lifenda?
Vegna syndar míns lýðs var honum refsað.
Menn bjuggu honum gröf meðal guðlausra,
legstað meðal ríkra
þótt hann hefði ekki framið ranglæti
og svik væru ekki í munni hans.
En Drottni þóknaðist að kremja hann og þjaka.
Þar sem hann færði líf sitt að sektarfórn
fær hann að sjá niðja sína og lifa langa ævi
og vegna hans nær vilji Drottins fram að ganga.
Að þjáningum sínum loknum mun hann sjá ljós
og seðjast af þekkingu sinni.
Þjónn minn mun réttlæta marga
því að hann bar syndir þeirra.
Þess vegna fæ ég honum hlutdeild með stórmennum
og hann mun skipta feng með voldugum
vegna þess að hann gaf líf sitt í dauðann
og var talinn með illræðismönnum.
En hann bar synd margra
og bað fyrir illræðismönnum.
Pistill Heb. 10. 1-18
Lögmálið geymir aðeins skugga hins góða sem er í vændum, ekki skýra mynd þess. Þær
sömu fórnir sem ár eftir ár eru bornar fram geta því aldrei gert þá fullkomna til frambúðar
sem ganga fram fyrir Guð. Hefðu ekki dýrkendur Guðs þá annars hætt að fórna ef þeir hefðu
hreinsast í eitt skipti fyrir öll og væru sér ekki framar meðvitandi um synd? En með þessum
fórnum er minnt á syndirnar ár hvert. Því að blóð nauta og hafra getur með engu móti numið
burt syndir.
Því er það að Kristur segir þegar hann kemur í heiminn:
Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað
en líkama hefur þú búið mér.
Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki.
Þá sagði ég: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn, Guð minn,
eins og ritað er í bókinni um mig.“
Fyrst segir hann: „Fórnir og gjafir og brennifórnir og syndafórnir hefur þú eigi viljað og eigi
geðjaðist þér að þeim.“ En það eru einmitt þær sem fram eru bornar samkvæmt
lögmálinu. Síðan segir hann: „Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn.“ Hann afnemur hið
fyrra og staðfestir hið síðara. Þannig gerði hann það sem Guð vildi og þess vegna erum við
helguð orðin að hann fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll.
Sérhver prestur er hvern dag bundinn við helgiþjónustu sína og ber fram margsinnis hinar
sömu fórnir. Þær geta þó aldrei afmáð syndir. En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og
settist um aldur við hægri hönd Guðs og bíður þess síðan að óvinir hans verði gerðir að
fótskör hans. Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þau er helguð verða.
Heilagur andi vitnar einnig fyrir okkur. Fyrst segir hann:
Þetta er sáttmálinn er ég mun gera við þá
eftir þá daga, segir Drottinn.
Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra
og í hugskot þeirra vil ég rita þau.
Síðan segir hann:
Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota.
En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar þarf ekki framar fórn fyrir synd.
Guðspjall Jóh. 19. 16-30
Þá seldi (Pilatus) þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.
Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist
Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til
sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð
skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa
áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á
hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki
konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“ Pílatus svaraði: „Það
sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk
hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður
úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver
skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María
Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir
hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú
er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig
þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og
báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá
hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.
Sálmur Sb 130
1. Hvíli eg nú síðast huga minn,
Herra Jesús, við legstað þinn.
Þegar ég gæti að greftran þín,
gleðst sála mín.
Skelfing og ótti dauðans dvín.
2. Sektir mínar og syndir barst
sjálfur þegar þú píndur varst.
Upp á það dóstu, Drottinn kær,
að kvittuðust þær.
Hjartað því nýjan fögnuð fær.
3. Svo finni eg hæga hvíld í þér,
hvíldu, Jesú, í brjósti mér.
Innsigli heilagur andi nú
með ást og trú
hjartað mitt, svo þar hvílist þú.
4. Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst,
viska, makt, speki og lofgjörð stærst
sé þér, ó, Jesú, herra hár,
og heiður klár.
Amen, amen, um eilíf ár.
Hallgrímur Pétursson, PS. 50