Þorláksmessa. - 23. desember
Vers dagsins :Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.Drottinn er í nánd. (Fil 4.4 og 5b).Litur rauður
Kollekta:
Almáttugi Guð, sem kallaðir votta þína og lést orð þitt bera nýja birtu af orðum þeirra, við biðjum þig: Veit okkur að þekkja hjálpræðismátt þíns heilaga orðs, trúlega varðveita það og boða mönnum til sáluhjálpar, þér til dýrðar. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.
Lexía Sálm. 122, 6b-9
Minning hins réttláta er ævarandi,
hann þarf ekki að kvíða ótíðindum,
hjarta hans er stöðugt, hann treystir Drottni.
Hjarta hans er óhult, hann óttast ekki;
skjótt fær hann að líta fall óvina sinna.
Hann hefur miðlað mildilega og gefið fátækum
réttlæti hans stendur stöðugt að eilífu,
horn hans er hafið upp með sæmd.
Pistill Hebr. 7. 24- 27
En hann (Jesús) er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti. Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá sem hann leiðir fram fyrir Guð þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim. Slíks æðsta prests höfðum við þörf sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri. Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gerði hann í eitt skipti fyrir öll er hann fórnfærði sjálfum sér.
Guðspjall Matt. 24. 42-47
Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur. Það skiljið þér að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.Verið þér og viðbúin því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi. Hver er sá trúi og hyggni þjónn sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.
Sálmur 203 vers 5. og 6.
Í vestri kvöldsins bjarmi boðar frið,
og brátt fær hvíld hið þreytta, trúa lið,
og Paradísar heilagt opnast hlið.
Hallelúja, hallelúja.
Og sjá - þá aftur dýrri dagur skín,
er Drottinn kallar trúu börnin sín
til lífs í sælu, sem ei framar dvín.
Hallelúja, hallelúja.
Valdimar V. Snævar