Aðfangadagur – 24. Desember
Aðfangadagur – 24. DesemberLjós heimsins
Litur: Hvítur
Vers vikunnar:
„Og Orðið varð hold, hann bjó með oss,“ (Jóh 1.14)
Kollekta:
Eilífi Guð og faðir, þú, sem árlega vekur með okkur gleðiríka eftirvænting endurlausnar okkar: Gef þú, að við sem með fögnuði heilsum syni þínum sem frelsara okkar, megum og líta hann óttalaust, þegar hann kemur sem dómari í dýrð sinni. Því að hann lifir og ríkir með þér í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Mík 5.1-4a
En þú, Betlehem í Efrata,
ein minnsta ættborgin í Júda,
frá þér læt ég þann koma
er drottna skal í Ísrael.
Ævafornt er ætterni hans,
frá ómunatíð.
Því verður þjóðin yfirgefin
þar til sú hefur fætt er fæða skal.
Þá munu þeir sem eftir lifa ættmenna hans
snúa aftur til Ísraels lýðs.
Hann mun standa sem hirðir þeirra
í krafti Drottins,
í mætti nafns Drottins, Guðs síns,
og þeir óhultir verða.
Þá munu menn mikla hann
allt til endimarka jarðar.
Hann mun tryggja friðinn.
Pistill: Tít 2.11-14
Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.
Guðspjall: Lúk 2.1-14
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.