Nýársdagur 1.janúar / Í Jesú nafni / Áttidagur jóla /Á Guðs vegi
Nýársdagur 1.janúar / Í Jesú nafni / Áttidagur jóla /Á Guðs vegiLitur: Hvítur.
Vers vikunnar:
„Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.“ (Kól 3.17)
Kollekta:
Drottinn Guð, eilífi faðir, sem gafst okkur einkason þinn að frelsara og bauðst, að hann skyldi heita Jesús: Veit okkur af náð þinni, að við sem tignum heilagt nafn hans á jörðu, fáum hann sjálfan að sjá og tilbiðja á himnum, því að hann lifir og ríkir með þér í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 4Mós 6.22-27
Drottinn talaði til Móse og sagði:
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“
Pistill: Post 10.42-43
Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“
Guðspjall: Jóh 2.23-25
Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.