16. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Jesús Kristur afmáði dauðann en leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.“ (2Tím 1.10b)
Kollekta:
Drottinn, vér biðjum þig: Lát náð þín ávallt fyrir oss fara og eftir fylgja og vekja oss vilja og mátt til allra góða verka. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Slm 130
Helgigönguljóð.
Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.
Pistill: Fil 1.20-26
Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa.
Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.
Guðspjall: Jóh 11.1,3,17-27
Maður sá var sjúkur er Lasarus hét, frá Betaníu, þorpi Maríu og Mörtu, systur hennar. Nú gerðu systurnar Jesú orðsending: „Drottinn, sá sem þú elskar er sjúkur.“
Þegar Jesús kom varð hann þess vís að Lasarus hafði verið fjóra daga í gröfinni. Betanía var nálægt Jerúsalem, hér um bil fimmtán skeiðrúm[ þaðan.
Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn.
Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“
Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“
Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“
Sálmur: 54
Dýrlegi Jesús, Drottinn allra heima,
duftinu klæddur, Guðs einkason,
þig vil ég elska, einum þér fylgja,
anda míns heilsa, líf og von.
Fögur er hlíðin, frítt um völl og haga,
fagurt er vorið, sem lífgar allt.
Jesús er fegri, hærri og hreinni,
sem hjartað lífgar, snautt og kalt.
Blómkrónur anga, brosa móti sólu,
barnsaugað tæra þó fegur skín.
Blómið mun falla, brestur hvert auga,
birtan þín, Jesús, aldrei dvín.
Bjartur er máni, blítt skín sól í heiði,
blikandi stjarna er hýr að sjá.
Skærar þú lýsir, ljós heimsins, Jesús,
ljómi Guðs dýrðar himni frá.
Fegurð og yndi, allt á himni og jörðu
einum þér hneigir og skín af þér.
Hvert sem ég leita, hvað sem ég þrái,
hjarta míns gimsteinn vertu mér.
Hinst þegar kallið kemur burt af heimi,
kannastu við mig og lýstu mér.
Síðasta hugsun hjarta míns veri:
Heilagi bróðir, dýrð sé þér.
Þýskur höfundur ókunnur – Sigurbjörn Einarsson
Bæn dagsins:
Guð lífsins, þú sem reistir son þinn upp frá dauðum og opnaðir okkur leið til eilífs lífs. Við biðjum þig: Hjálpa okkur að treysta því að ekkert getur tekið þetta líf frá okkur aftur, því að þú geymir okkur örugg í þinni hönd um aldur og ævi. Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen.