18. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Dagur heilbrigðisþjónustunnar
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur. “ (1Jóh 4.21)
Kollekta:
Drottinn, vér biðjum þig: Lát verk miskunnar þinnar stjórna hjörtum vorum, því að án þín megnum vér ekki að þóknast þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 5Mós 10.12-14
Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er.
Pistill: 1Jóh 2.7-11
Þið elskuðu, það er ekki nýtt boðorð sem ég rita ykkur, heldur gamalt boðorð sem þið hafið haft frá upphafi. Hið gamla boðorð er orðið sem þið heyrðuð. Eigi að síður er það nýtt boðorð, er ég rita ykkur, og sannindi þess birtast í honum og í ykkur því að myrkrið er að hverfa og hið sanna ljós er þegar farið að skína.
Sá sem segist vera í ljósinu og hatar bróður sinn, hann er enn þá í myrkrinu. Sá sem elskar bróður sinn býr í ljósinu og í honum er ekkert er leitt geti hann til falls. En sá sem hatar bróður sinn er í myrkrinu og lifir í myrkrinu og veit ekki hvert hann fer því að myrkrið hefur blindað augu hans.
Guðspjall: Mrk 10.17-27
Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“
Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“
Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“
Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir.
Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“
Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“
En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“
Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“
Sálmur: 196
Á þig, Jesú Krist, ég kalla,
kraft mér auka þig ég bið.
Hjálpa þú mér ævi alla,
að ég haldi tryggð þig við.
Líkna mér og lát mér falla
ljúft að stunda helgan sið.
Eg svo hlýði ætíð þínum
elskuboðum, Herra minn,
votti trú í verkum mínum,
vel að reki’ eg feril þinn,
þinni raust með sannleik sínum
sífellt gegni varfærinn.
Fullkomnun, sem fyr’ir mig lagðir,
framt ástunda gef þú mér,
þá að elska, sem þú sagðir,
samt af alhug varast hér
neinn að fleka fölsku bragði,
fyrst að bræður erum vér.
Veit, að það, sem heimur heldur
heill, ei dragi mig frá þér.
Það, sem fyrir gott hann geldur,
gjarnan spott og vanþökk er,
en það sælu æðstu veldur,
ef vér, Drottinn, hlýðnumst þér.
Þá skal trú mín, þýði Herra,
þægan ávöxt bera sinn,
Drottins ætíð dýrðin vera,
dug og kraft er efldi minn,
fasta vörn skal fyrir bera,
freistar mín ef heimurinn.
Heyrir þú mitt hróp, ég treysti,
Herra, þér, og stenst ég þá.
Þótt mín syndir þráfalt freisti,
þú mér aldrei víkur frá,
en mér sendir sanna hreysti,
sigri frægum loks að ná.
Agricola – Sb. 1589 – Jón Espólín
Bæn dagsins:
Einföld og skír eru boð þín Drottinn. Þú hefur boðið okkur að elska þig af öllu hjarta og náungann eins og okkur sjálf. Hjálpa þú okkur að lifa samkvæmt leiðsögn kærleika þíns í krafti anda þíns. Amen.