21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ (Róm 12.21)
Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Varðveit söfnuð þinn með stöðugri föðurelsku, að hann megi í skjóli þínu óhultur vera fyrir öllum háska og vegsama með verkum sínum þitt heilaga nafn. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Slm 91.1-4
Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.
Pistill: 1Kor 3.6-9
Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn. Sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu. Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.
Guðspjall: Jóh 4.34-38
Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“
Sálmur: 32
Upp hef ég augu mín
alvaldi Guð, til þín.
Náð þinni’ er ljúft að lýsa,
lofa þitt nafn og prísa.
Allt er að þakka þér
það gott, sem hljótum vér
um allar aldaraðir,
eilífi ljóssins faðir.
Vér erum gleymskugjörn,
gálaus og fávís börn,
en þú, sem aldrei sefur,
á öllum gætur hefur.
Eg veit, að aldrei dvín
ástin og mildin þín,
því fel ég mig og mína,
minn Guð, í umsjá þína.
Sb. 1945 – Herdís Andrésdóttir
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, þú lætur sól þína renna upp yfir góða og vonda og villt að við elskum óvini okkar og andstæðinga. Gef okkur anda þinn, að við sigrum hið illa með góðu og dveljum í friði þínum í hverskyns átökum, fyrir Jesú Krist.