Næst síðasti sunnudagur kirkjuársins
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists.“ (2Kor 5.10a)
Kollekta:
Miskunnsami, eilífi Guð: Vek þú oss nýjan vilja og þrá að lifa þér og veit oss til þess mátt kærleika þíns, að vér sakir náðar þinnar fáum borið ávöxt í öllu góðu og öðlast þitt eilífa líf. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 66.10-13
Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.
Pistill: Opb 15.2-4
Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.
Guðspjall: Matt 11.25-30
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“
Sálmur: 204
Fyrir þá alla, er fá nú hvíld hjá þér,
en forðum trúarstyrkir börðust hér,
þér vegsemd, Jesús, þökk og heiður ber.
Hallelúja, hallelúja.
Þú varst þeim sjálfur varnarskjólið traust,
á voðans stund þeir heyrðu þína raust,
og geisli frá þér gegnum sortann braust.
Hallelúja, hallelúja.
Ó, mættum vér gegn heimi heyja stríð,
sem helgir vottar þínir fyrr og síð,
og öðlast krónu lífs, er lýkur hríð.
Hallelúja, hallelúja.
Þótt hugdirfð bregðist, hjartans kólni glóð,
ó, heyr! Í fjarska óma sigurljóð,
sem hjörtun styrkja, hressa dapran móð.
Hallelúja, hallelúja.
Í vestri kvöldsins bjarmi boðar frið,
og brátt fær hvíld hið þreytta, trúa lið,
og Paradísar heilagt opnast hlið.
Hallelúja, hallelúja.
Og sjá – þá aftur dýrri dagur skín,
er Drottinn kallar trúu börnin sín
til lífs í sælu, sem ei framar dvín.
Hallelúja, hallelúja.
How – Valdimar V. Snævarr
Bæn dagsins:
Drottinn, hjálpa mér að efast ekki um að þú ert Guð – að Jesús er frelsari minn – að þú ert hjá mér með heilögum anda þínum. Amen.