Þjóðhátíðardagurinn - 17. júní
Vers vikunnar:„Ég mun ganga um mitt á meðal ykkar, vera Guð ykkar og þið verðið þjóð mín.“ (3Mós 26.12)
Kollekta:
Almáttugi Guð, sem hefur gefið oss land, þar sem vér höfum frelsi til að játa þitt heilaga nafn, tilbiðja þig og þjóna þér og leita ríkis þíns: Vér biðjum þig að kenna oss að meta þessa gjöf, varðveita hana og ávaxta til eilífra heilla fyrir oss og niðja vora. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jer 32.38-41
Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.
Pistill: Róm 13.8-10
Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.
Guðspjall: Matt 7.7-12
Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.
Sálmur: 519
Upp, þúsund ára þjóð,
með þúsund radda ljóð.
Upp allt, sem er og hrærist
og allt, sem lífi nærist.
Upp, harpa Guðs, þú heimur.
Upp, haf og landageimur.
Skín, sól, á sumarfjöll,
og signdu vatnaföll,
breið geisla guðvefsklæði
á grundir, skóg og flæði,
gjör fjöll að kristallskirkjum
og kór úr bjarga virkjum.
Krjúp lágt, þú litla þjóð,
við lífsins náðarflóð.
Eilífum Guði alda
þú átt í dag að gjalda
allt lánsfé lífs þíns stunda
með leigum þúsund punda.
Upp, upp, þú Íslands þjóð
með eldheitt hjartablóð,
Guðs sólu signd er foldin,
öll sekt í miskunn goldin:
Þú átt, þú átt að lifa
öll ár og tákn það skrifa.
Kom, Jesú Kristí trú,
kom, kom og í oss bú,
kom, sterki kærleiks kraftur,
þú kveikir dáið aftur.
Ein trú, eitt ljós, einn andi
í einu fósturlandi.
Guð faðir, lífs vors líf,
þú lands vors eilíf hlíf,
sjá, í þér erum, hrærumst,
og af þér lifum, nærumst,
þú telur minnstu tárin
og tímans þúsund árin.
Sb. 1945 – Matthías Jochumsson
Bæn dagsins:
Guð sem lætur þér annt um skipulag og reglur sem vernda lífið. Í þínum höndum eru hjöðrtu mannanna og réttur þjóðanna. Þú felur okkur að eiga hlutdeild í ábyrgðinni á allri veröld þinni, á hag þjóðarinnar og fullveldi ríkisins. Lát okkur ekki þreytast á því. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists sem eykur kjark og efllir kraft. Amen.