1. sunnudagur í aðventu – Drottinn kemur
Litur: Hvítur.Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.
Vers vikunnar:
„Sjá, konungur þinn kemur til þín.“ (Sak 9.9)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og veit oss vernd, að vér leysumst úr þeim háska sem yfir oss vofir vegna synda vorra og frelsumst fyrir hjálpræði þitt, því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jer 33.14-16
Þeir dagar koma, segir Drottinn, þegar ég læt hið góða fyrirheit rætast sem ég gaf Ísraelsmönnum og Júdamönnum. Á þeim dögum og þeim tíma mun ég láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun framfylgja rétti og réttlæti í landinu. Á þeim dögum mun Júda bjargað og Jerúsalem verða óhult. Þetta nafn verður henni gefið: Drottinn er réttlæti vort.
Pistill: Opb 3.20-22
Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
Guðspjall: Lúk 4.16-21
Jesús kom til Nasaret, þar sem hann var alinn upp, og fór að vanda sínum á hvíldardegi í samkunduna og stóð upp til að lesa. Var honum fengin bók Jesaja spámanns. Hann lauk upp bókinni og fann staðinn þar sem ritað er:
Andi Drottins er yfir mér
af því að hann hefur smurt mig.
Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap,
boða bandingjum lausn
og blindum sýn,
láta þjáða lausa
og kunngjöra náðarár Drottins.
Síðan lukti Jesús aftur bókinni, fékk hana þjóninum og settist niður en augu allra í samkundunni hvíldu á honum. Hann tók þá að tala til þeirra: „Í dag hefur ræst þessi ritning í áheyrn yðar.“
Sálmur: 57
Slá þú hjartans hörpu strengi,
hrær hvern streng sem ómað fær.
Hljómi skært og hljómi lengi
hósíanna nær og fjær.
Hvert þitt innsta æðarslag
ómi’ af gleði þennan dag.
Konungurinn konunganna
kemur nú til sinna manna.
Ríki hans um allar álfur
ómælanda geimsins nær.
Hásætið er himinn sjálfur,
hallarprýði sólin skær,
fótskör hans hin fagra jörð,
fylgdin hans er englahjörð.
Skrúða ljóssins skrýddur er hann,
skíra lífsins krónu ber hann.
Hann, þótt æðst í hátign ljómi,
hógvær kemur alls staðar.
Hjarta þitt að helgidómi
hann vill gjöra’ og búa þar.
Opna glaður hjartans hús,
hýs hinn tigna gestinn fús.
Getur nokkuð glatt þig fremur:
Guð þinn sjálfur til þín kemur?
Líknarár hann enn þá gefur,
ár, sem háð ei breyting er,
ár, er sumar ávallt hefur,
ávöxt lífs að færa þér.
Vetur, sumar, vor og haust
votti þakkir endalaust
konunginum konunganna,
krýndum vegsemd. Hósíanna.
Sb. 1886 – Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Undursamlegi Guð sem kemur til okkar í syni þínum Jesú Kristi auðmjúkur og allslaus, en ekki í valdi og krafti, og ert þó sterkari en alt vald á jörðu. Gef öllum mönnum og þjóðum náð til að þekkja þig og að taka á móti syni þínum þegar hann kemur, svo að nótt okkar verði björt eins og dagur í ljósi hans. Amen.