4. sunnudagur í aðventu – Jólagleðin nálgast
Litur: Fjólublár.Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ „Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4 og 5b)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og hjálpa oss, svo að allt hið góða, sem syndir vorar hindra, megi framgang fá sakir náðar þinnar, þú sem lifir og rikir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 12.2-5
Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur,
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa
úr lindum hjálpræðisins.
Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð.
Pistill: 1Jóh 1.1-4
Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. Þetta skrifum við til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
Guðspjall: Jóh 3.22-30
Eftir þetta fóru Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.
Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins. Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar og þú barst vitni um, hann er að skíra og allir koma til hans.“
Jóhannes svaraði þeim: „Enginn getur tekið neitt nema Guð gefi honum það. Þið getið sjálfir vitnað um að ég sagði: Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum. Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka.“
Sálmur: 59
Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt.
Þú, Herrans kristni, fagna mátt,
því kóngur dýrðar kemur hér
og kýs að eiga dvöl hjá þér.
Hann býður líknar blessað ár
hann býður dýpst að græða sár,
hann býður þyngstu’ að borga sekt,
hann býður aumra’ að skýla nekt.
Sjá, mildi’ er lögmál lausnarans,
sjá, líkn er veldissproti hans.
Því kom þú, lýður kristinn, nú
og kóngi dýrðar fagna þú.
Hve sælt það land, hve sælt það hús,
er sælugjafinn líknarfús
sér trútt og hlýðið fundið fær,
þar friður, heill og blessun grær.
Hve sælt það hjarta ávallt er,
sem ást til Krists með lotning ber
og honum í sér bústað býr,
að bragði sorg öll þaðan flýr.
Gjör dyrnar breiðar, hliðið hátt
þig, hjarta, prýð sem best þú mátt,
og trúarlampann tendra þinn,
og til þín bjóð þú Jesú inn.
Ég opna hlið míns hjarta þér,
ó, Herra Jesú, bú hjá mér,
að fái hjálparhönd þín sterk
það heilagt unnið náðarverk.
Ó, kom, minn Jesú, kom sem fyrst,
ó, kom og mér í brjósti gist,
ó, kom þú, segir sála mín,
ó, seg við mig: Ég kem til þín.
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Eilífi Guð, við bíðum Jesú Krists sonar þíns og bróður okkar sem kemur til að dæma heiminn og til að frelsa hann. Gef þú okkur fullvissu þess að hann úrskurðar í náð, og vek með okkur gleðina yfir því að hann frelsar. Þér sé lof að eilífu. Amen.