2. sunnudagur eftir þrettánda
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Lögmálið var gefið með Móse en náðin og sannleikurinn eru komin með Jesú Kristi.“ (Jóh 1.17)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, þú sem öllu stjórnar á himni og á jörðu: Heyr í mildi bænir vorar og gef frið um vora daga. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1Sam 3.1-10
Sveinninn Samúel gegndi nú þjónustu við Drottin undir handleiðslu Elí. Á þessum tíma var orð Drottins sjaldgæft og sýnir fátíðar.
Einhverju sinni bar svo við að Elí lá og svaf þar sem hann var vanur. Hann var hættur að sjá því að augu hans höfðu daprast. Lampi Guðs hafði enn ekki slokknað og Samúel svaf í musteri Drottins þar sem örk Guðs stóð.
Þá kallaði Drottinn til Samúels og hann svaraði: „Já, hér er ég.“ Hann hljóp síðan til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, farðu aftur að sofa,“ og Samúel fór að sofa. Drottinn kallaði þá aftur: „Samúel!“ og Samúel reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, sonur minn, farðu aftur að sofa.“
En Samúel þekkti Drottin ekki enn þá og orð Drottins hafði ekki enn opinberast honum. Þá kallaði Drottinn til Samúels í þriðja sinn og hann reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ Nú skildi Elí að það var Drottinn sem var að kalla til drengsins. Elí sagði því við Samúel: „Farðu að sofa. En kalli hann aftur til þín skaltu svara: Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Samúel fór og lagðist fyrir á sínum stað.
Þá kom Drottinn, nam staðar andspænis honum og hrópaði eins og í fyrri skiptin: „Samúel, Samúel!“ Samúel svaraði: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“
Pistill: Róm 1.16-17
Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir, Gyðinginn fyrst og aðra síðan. Réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar eins og ritað er: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.
Guðspjall: Lúk 19.1-10
Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“
Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“
En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“
Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“
Sálmur: 113
Hve sælt hvert hús, er sinna meðal gesta
þér sífellt býður heim, ó, Jesús kær.
Í húsi því er hátíð æ hin besta,
er heimsókn þína dag hvern öðlast fær.
Hve sælt hvert hús, ef hjón þar saman búa
í helgri trú og von og kærleik eitt
og sífellt augum sálna til þín snúa,
um samfylgd þína biðja þrátt og heitt.
Hve sælt hvert hús, er ber á bænarörmum
sín börn til þín í hjartans ást og trú
og felur þínum faðmi kærleiksvörmum
þau fögur vorblóm, svo þeim hjúkrir þú.
Hve sælt hvert hús, er lætur unga læra
þitt lífsins orð, sem næring sálar er,
og kennir þeim þér hlýðnisfórn að færa
og fagurt lof af ást að gjalda þér.
Hve sælt hvert húsið, þar sem athöfn alla
þér allir helga’ og gjörvallt dagfar sitt.
Þú síðar þá til samvistar munt kalla
í sæluríka dýrðarhúsið þitt.
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð í kærleika þínum er kraftur til umbreytingar. Leyfðu okkur að komast að raun um, að þú getur látið gleði vaxa upp úr sorginni, frið og sátt verða milli þeirra sem deila, öruggt traust fæðast í vonleysinu og fyrirgefningu í sektinni. Gef okkur styrk trúarinnar að við treystum því að líf okkar beri ávöxt. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists sem vitjar barna sinna. Amen.