4. sunnudagur eftir þrettánda – Bænadagur að vetri
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber.“ (Róm 8.19)
Kollekta:
Guð, þú sem veist, að vér erum í slíkum háska stödd, að vér fáum ekki staðist án þín: Gjör oss heil á sál og líkama, að vér með hjálp þinni sigrumst á því sem þjakar oss sakir synda vorra. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Job 42.1-5
Job svaraði Drottni og sagði:
Nú skil ég að þú getur allt,
ekkert, sem þú vilt, er þér um megn.
Hver myrkvar ráðsályktunina án þekkingar?
Ég hef talað af skilningsleysi
um undursamleg kraftaverk.
Hlustaðu, nú ætla ég að tala,
ég ætla að spyrja, þú skalt svara.
Ég þekkti þig af afspurn
en nú hefur auga mitt litið þig.
Pistill: Post 16.25–31
Um miðnætti báðust þeir Páll og Sílas fyrir og lofsungu Guði en bandingjarnir hlustuðu á þá. Þá varð skyndilega landskjálfti mikill svo að grunnur fangelsisins riðaði. Jafnskjótt opnuðust allar dyr og fjötrarnir féllu af öllum. Fangavörðurinn vaknaði við og er hann sá fangelsisdyrnar opnar dró hann sverð sitt og vildi fyrirfara sér þar eð hann hugði fangana flúna. Þá kallaði Páll hárri raustu: „Ger þú sjálfum þér ekkert mein, við erum hér allir!“ Fangavörðurinn bað um ljós, stökk inn og féll óttasleginn til fóta Páli og Sílasi. Síðan leiddi hann þá út og sagði: „Herrar mínir, hvað á ég að gera til að verða hólpinn?“
En þeir sögðu: „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.“
Guðspjall: Matt 14.22-33
Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“
Sálmur: 571
Þótt æði stormar heims um haf,
ei háski granda má oss,
þeir bát vorn fært ei fá í kaf,
því frelsarinn er hjá oss.
Ei öldur skaða’ oss hót, því hann,
er haf og vinda stöðva kann,
þeim bægir burtu frá oss.
Þótt vantrú sjái’ af hættum her
og hugsi: “Drottinn sefur,”
og hræðslan kveini: “Hjálpin þver,
oss Herrann yfirgefur” -
ég þreyja vil í traustri trú
og treysta, Jesús minn, að þú
mig örmum verndar vefur.
Mitt hjarta, Jesús, vantrú ver,
þótt volki heims ei linni,
en þá mig hels að boða ber,
þú bjarga sálu minni,
þá virstu hasta’ á vind og sjó,
og veittu mér í sælli ró
að lenda í lífshöfn þinni.
Ingemann – Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð, þú skipar storminum fyrir og gjörir kyrrð. Feyk í burtu skýjum efans og óttans. Gef okkur börnum þínum öllum styrk trúarinnar fyrir Jesú Krist sem leiðir okkur í hverskyns stormum. Amen.