3. sunnudagur eftir þrettánda
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki.“ (Lúk 13.29)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Lít í líkn á veikleika vorn og réttu þína voldugu hönd til verndar oss. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Hós 2.20-25
Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn
við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar
og eyði boga, sverði og stríði úr landinu
og læt þá búa óhulta.
Ég festi þig mér um alla framtíð,
ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi,
ég festi þig mér í tryggð,
og þú munt þekkja Drottin.
Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn,
ég mun bænheyra himininn
og hann mun bænheyra jörðina
og jörðin mun bænheyra kornið,
vínið og olíuna,
og þau munu bænheyra Jesreel
og mín vegna mun ég sá henni í landið.
Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn
og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“
og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“
Pistill: Heb 11.1-3, 6
Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs.
Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega.
Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.
Guðspjall: Lúk 17.5-10
Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“
En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.
Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“
Sálmur: 207
Sú, trú, sem fjöllin flytur,
oss fári þyngstu ver,
ei skaða skeyti bitur,
þann skjöld ef berum vér,
í stormum lífs hún styður
og styrkir hjörtun þreytt,
í henni’ er fólginn friður,
sem fær ei heimur veitt.
Minn Jesús, lát ei linna
í lífi trú mér hjá,
svo faldi fata þinna
ég fái þreifað á
og kraftinn megi kanna,
sem kemur æ frá þér
til græðslu meinum manna
og mesta blessunb lér.
Í trú mig styrk að stríða
og standast eins og ber,
í trú mig láttu líða,
svo líki, Drottinn, þér.
Er dauðans broddur bitur
mér beiskri veldur þrá,
þá trú, er fjöllin flytur,
mig friða láttu þá.
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð, þú sem bjargar, þú gefur og skapar þú viðheldur og fullkomnar, með heilögu orði þínu. Tala þú orð þitt einnig inn í okkar neyð og ótta, svo að við vinnum bug á þeim með þinni aðstoð og þökkum þér hjálp þína fyrir Jesú Krists. Amen.