2. sunnudagur í níuviknaföstu (sexagesima) – Biblíudagurinn
Vers vikunnar:„Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni.“ (Heb 3.15)
Kollekta:
Drottinn Jesús Kristur, þú sem ert orð lífsins. Þú gjörðist hold á jörðu og kunngjörðir oss leyndardóma Guðs ríkis: Gef oss náð til að trúa með fögnuði og treysta því, sem Heilög ritning boðar oss til hjálpræðis, því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 40.6-8
Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“
Pistill: Heb 4.12-13
Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. Enginn skapaður hlutur er Guði hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.
Guðspjall: Mrk 4.26-32
Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“
Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“
Sálmur: 117
Góðan ávöxt Guði berum,
gróðursettir af hans náð
þessa heims í akri erum,
æðra lífs þó til var sáð.
Góðan jarðveg gaf oss Drottinn,
góð svo jurt hér yrði sprottin.
Lífdögg hann oss sendi sína:
sinnar skírnar vatnið tært.
Ljósið sitt hann lét oss skína:
lífsins orða blysið skært.
Náðargeisla himins hlýja
hann oss jafnan sendi nýja.
Góðan ávöxt Guði berum,
góðan ávöxt sjálfum oss,
eigi lengur visnir verum,
vöxum upp við Jesú kross.
Lát oss þar við lífstréð rétta,
lífsins faðir, ávallt spretta.
Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Eilífi Guð, leiddu mig að vinjum þíns eilífa orðs. Bjarga mér frá eyðimörk illra örlaga og bölvunar. Gef mér athygli, þolinmæði og trúfesti. Kenndu mér rétta tungumálið svo ég skilji þig þegar þú talar við mig. Leiddu mig til baka að vinjum þíns heilaga orðs svo að ég sé hjá þér og megi lofa þig að eilífu.