Sunnudagur í föstuinngang (Estomihi) - Æskulýðsdagurinn
Vers vikunnar:
„Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn.“ (Lúk 18.31)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í mildi bænir vorar. Leys oss úr viðjum syndanna og varðveit oss gegn öllu illu. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Am 5.21-24
Ég hata, ég fyrirlít hátíðir yðar.
Ég hef enga ánægju af samkomum yðar.
Jafnvel þótt þér færið mér brennifórnir og kornfórnir
lít ég ekki við þeim,
né heldur matfórnum yðar af alikálfum.
Burt með glamur sálma þinna sem aðeins er hávaði.
Ég vil ekki heyra hörpuleik þinn.
Réttvísi skal streyma fram sem vatn
og réttlæti sem sírennandi lækur.
Pistill: Ef 6.18b-20
Verið þannig árvökul og stöðug í bæn fyrir öllum heilögum. Biðjið fyrir mér að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins. Boðberi þess er ég í fjötrum mínum. Biðjið að ég geti flutt það með djörfung eins og mér ber að tala.
Guðspjall: Mrk 8.31-38
Þá tók Jesús að kenna þeim: „Mannssonurinn á margt að líða. Öldungarnir, æðstu prestarnir og fræðimennirnir munu útskúfa honum. Menn munu lífláta hann en hann mun upp rísa eftir þrjá daga.“ Þetta sagði Jesús berum orðum. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann. Jesús sneri sér við, leit til lærisveina sinna, ávítaði Pétur og sagði: „Vík frá mér, Satan, eigi hugsar þú um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“Og Jesús kallaði til sín mannfjöldann ásamt lærisveinum sínum og sagði: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu vegna mín og fagnaðarerindisins mun bjarga því. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð föður síns með heilögum englum mun hann blygðast sín fyrir hvern þann sem blygðast sín fyrir mig hjá þessari ótrúu og syndugu kynslóð.“
Sálmur: 130
Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til,
Herrans pínu ég minnast vil.
Ljúfan Jesú til lausnar mér
langaði víst að deyja hér.
Mig skyldi’ og lysta að minnast þess
mínum Drottni til þakklætis.
Innra mig loksins angrið sker,
æ, hvað er lítil rækt í mér,
Jesús er kvalinn í minn stað,
of sjaldan hef ég minnst á það.
Sál mín, skoðum þá sætu fórn,
sem hefur oss við Guð, Drottin vorn,
fordæmda aftur forlíkað,
fögnuður er að hugsa um það.
Hvað stillir betur hjartans böl
en heilög Drottins pína’ og kvöl?
Hvað heftir framar hneyksli’ og synd
en Herrans Jesú blóðug mynd?
Hvar fær þú glöggvar, sál mín, séð
sanna Guðs ástar hjartageð,
sem faðir gæskunnar fékk til mín,
framar en hér í Jesú pín?
Ó, Jesús, gef þinn anda mér,
allt svo verði til dýrðar þér
upp teiknað, sungið, sagt og téð,
síðan þess aðrir njóti með.
Hallgrímur Pétursson (Ps. 1)
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, þú sýndir öllum heimi kærleika þinn og gjörðist hluttakandi í þjáningu heimsins þegar sonur þinn Drottinn Jesús Kristur gaf sjálfan sig til dauða á krossi Við biðjum þig: Opna þú augu okkar að við sjáum leyndardóminn bak við þjáningu hans og dauða. Gef okkur kraft til að fylgja honum í hlýðni og í kærleika í þjónustunni við þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og eftir lausn frá böli og þunga í sínu daglega lífi. Fyrir þann sama Son þinn Jesú, bróður okkar og frelsara. Amen.