Öskudagur
Kollekta:
Miskunnsami Guð, þú sem fyrirgefur þeim sem iðrast synda sinna, gef einnig oss sanna iðrun og fyrirgefningu synda vorra. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jl 2.12-18
En jafnvel nú,
segir Drottinn,
skuluð þér snúa yður til mín af öllu hjarta yðar,
með föstu, með gráti, með harmakveini.
Rífið hjörtu yðar
fremur en klæði yðar
og snúið aftur til Drottins, Guðs yðar.
Miskunnsamur er hann og líknsamur,
seinn til reiði og gæskuríkur
og iðrast hins illa.
Hver veit nema hugur hans snúist enn og mildist
svo að hann láti blessun hljótast af,
svo að þér getið
aftur fært Drottni,
Guði yðar,
matfórn og dreypifórn.
Þeytið hornið á Síon,
boðið helga föstu,
efnið til helgrar samkundu.
Kallið fólkið saman,
helgið söfnuðinn,
safnið saman öldungunum,
safnið saman börnunum,
jafnvel þeim sem enn eru á brjósti.
Brúðguminn komi út úr herbergi sínu
og brúðurin undan tjaldhimni sínum.
Milli fordyris og altaris
skulu prestarnir, þjónar Drottins,
gráta og segja:
„Þyrmdu þjóð þinni, Drottinn,
ofurseldu arfleifð þína ekki smáninni
svo að þjóðirnar hæði hana.
Hví skyldu þjóðirnar spyrja:
Hvar er Guð þeirra?
Megi vandlæting Drottins kvikna vegna lands hans
og megi hann sýna þjóð sinni umhyggju.“
Pistill: 2Pét 1.3-12
Með guðlegum mætti sínum hefur Jesús Kristur gefið okkur allt sem þarf til lífs í guðrækilegri breytni, með þekkingunni á honum sem hefur kallað okkur með dýrð sinni og dáð. Með því hefur hann veitt okkur dýrmæt og háleit fyrirheit sem fela í sér að þið komist undan spillingunni í heiminum sem girndin veldur og verðið hluttakendur í guðlegu eðli. Leggið þess vegna alla stund á að sýna í trú ykkar dygð og í dygðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsaga, í sjálfsaganum þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika. Ef þið hafið þetta til að bera og vaxið í því verðið þið hvorki iðjulaus né mun þekking ykkar á Drottni vorum Jesú Kristi reynast dáðlaus og ávaxtalaus. En sá sem ekki hefur þetta til að bera er blindur í skammsýni sinni og hefur misst sjónar á að hann hafi verið hreinsaður af fyrri syndum sínum.
Kostið þess vegna fremur kapps um, systkin, að gera köllun ykkar og útvalning vissa. Ef þið gerið það munuð þið aldrei hrasa. Þá mun ykkur ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki Drottins vors og frelsara Jesú Krists.
Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast.
Guðspjall: Matt 9.14-17
Þá koma til Jesú lærisveinar Jóhannesar og segja: „Hví föstum við og farísear en þínir lærisveinar fasta ekki?“
Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir verið hryggir meðan brúðguminn er hjá þeim? En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn. Þá munu þeir fasta.
Enginn lætur bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur bótin út frá sér og verður af verri rifa. Ekki láta menn heldur nýtt vín á gamla belgi því þá springa belgirnir og vínið fer niður en belgirnir ónýtast. Menn láta nýtt vín á nýja belgi og varðveitist þá hvort tveggja.“
Sálmur: 309
Ó, Jesús að mér snú
ásjónu þinni.
Sjá þú mig særðan nú
á sálu minni.
Þegar ég hrasa hér,
hvað mjög oft sannast,
bentu í miskunn mér
svo megi ég við kannast.
Oft lít ég upp til þín,
augum grátandi,
líttu því ljúft til mín,
svo leysist vandi.
Hallgrímur Pétursson (PS 12)
Bæn dagsins:
Guð, skapari og Drottinn tímans og allra tíma. Þegar tími hins glaðlega kæruleysis er liðinn verður okkur ljóst hvað það er sem gerir líf okkar erfitt. Þjáning og dauði, raunir og freistingar, vonbrigði og vinslit vitja okkar. Gef okkur styrk á dimmum stundum með birtu vonarinnar um framtíð með þér, fyrir Jesú Krist, bróður okkar og frelsara. Amen.