Boðunardagur Maríu – 25. mars – (5. sunnudagur í föstu (iudica))
Boðunardagur Maríu er 25. mars, en er oft haldinn hátíðlegur 5. sunnudag í föstu (iudica). Litur: Hvítur. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.Vers vikunnar:
„En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli -“ (Gal 4.4)
Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Vitja vor í náð og gef, að vér sem samkvæmt boðun engilsins vitum, að eilífur sonur þinn fæddist af Maríu meyju, megum sakir krossferils hans fæðast til himneskrar dýrðar upprisu hans, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1Sam 2.1-10
Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.
Pistill: Róm 8.38-39
Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.
Guðspjall: Lúk 1.46-56
Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.
En María dvaldist hjá henni hér um bil þrjá mánuði og sneri síðan heim til sín.
Sálmur: 573
Nú gleðifregn oss flutt er ný
úr fögrum himinsölum:
Sá Guð, er hæst býr hæðum í,
vill hér í jarðardölum
oss búa hjá; um blessun þá
og birta leyndardóma
Guðs engla raddir óma.
Ein kyrrlát mær þá kveðju fær,
sem kætir bæði’ og hræðir,
að hennar sonur hjartakær,
er hún á síðan fæðir,
það veldi fær, er voldugt nær
um víðar heimsins álfur
og hærra’ en himinn sjálfur.
Við mey þá engill mæla réð:
“Þú munt af himnum þiggja
Guðs anda gjöf; þig mun þar með
Guðs máttur yfirskyggja.
Og lífs þíns von, þinn ljúfa son,
þú lausnara skalt kalla,
hann endurleysir alla.”
Lát kraft þinn, Jesús, Jesús minn,
mig jafnan yfirskyggja,
og lát þitt orð og anda þinn
mér æ í hjarta byggja,
svo ég sé þinn og þú sért minn
og þinn æ minn sé vilji
og ekkert okkur skilji.
Þitt himnaríki’ í hjarta mér
þinn helgur andi búi,
svo hafni’ eg því, sem holdlegt er,
en hjarta til þín snúi,
uns englum jafnt þitt Jesúnafn
fæ ég með þeim að róma
hjá þér í lífsins ljóma.
Valdimar Briem þýddi
Bæn dagsins:
Eilífi Guð sem forðum sendir engil þinn til Maríu að boða henni að fyrir hana myndi þitt eilífa orð verða maður til að endurleysa okkur. Gef okkur eins og Maríu að taka við náð þinni og kærleika í auðmykt og trausti að allur heimur þekki frelsara sinn og lofi þig. Þess biðjum við í nafni hins sama Drottins og frelsara Jesú Krists. Amen.