3. sunnudagur í föstu (Oculi)
Vers vikunnar:„Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ (Lúk 9.62)
Kollekta:
Vér biðjum þig, almáttugi Guð: Heyr bænir vorar, barna þinna, og lát þína voldugu verndarhönd hlífa oss og hjálpa. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 2Mós 20.1-3, 7-8, 12-17
Drottinn mælti öll þessi orð:
„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.
Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma.
Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér.
Þú skalt ekki morð fremja.
Þú skalt ekki drýgja hór.
Þú skalt ekki stela.
Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“
Pistill: Opb 2.8-11
Engli safnaðarins í Smyrnu skaltu rita:
Þetta segir sá fyrsti og síðasti, sá sem dó og varð aftur lifandi: Ég þekki þrengingu þína og fátækt – en þú ert samt auðugur. Ég veit hvernig þú ert hrakyrtur af þeim sem segja sjálfa sig vera Gyðinga en eru það ekki heldur samkunda Satans. Kvíð þú ekki því sem þú átt að líða. Djöfullinn mun varpa nokkrum yðar í fangelsi til þess að reyna yður og þér munuð þola þrengingu í tíu daga. Vertu trúr allt til dauða og ég mun gefa þér kórónu lífsins.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum. Þeim er sigrar mun sá annar dauði ekki granda.
Guðspjall: Jóh 8.42-51
Jesús svaraði: „Ef Guð væri faðir yðar munduð þér elska mig því að frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki hef ég sent mig sjálfur. Það er hann sem sendi mig. Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt. Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gera það sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og hefur aldrei þekkt sannleikann því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu því hann er lygari og lyginnar faðir. En af því að ég segi sannleikann trúið þér mér ekki. Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“
Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“
Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“
Sálmur: 298
Ó, Herra Guð, lát hjá oss mætast
þitt heilagt orð og rétta trú,
en sérhvern upp þann ávöxt rætast,
sem eigi gróðursettir þú.
Á burt hvern lygalærdóm hrek,
en líf í sannleik hjá oss vek.
Lát svikaspár ei sálir villa
frá sannleiksbraut á myrka leið,
ei fyrir hjörtum huggun spilla,
er hlotnast þeim af Jesú deyð,
lát byrgjast voðans breiða djúp,
rek burt hvern úlf í sauðahjúp.
Að þitt nú, Drottinn, orð vér eigum,
það ávann þinna votta blóð.
Ó, hversu það vér þakka megum,
að þessi perla dýr og góð,
sem týnd var, fundin aftur er
og ávallt nú sinn ljóma ber.
Landstad – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð, uppspretta ljóssins. Þú opnar augu okkar svo að við getum séð í gegn um hið óútskýrða og þorum að trúa þrátt fyrir allt óöryggið. Hjálpa þú okkur að taka eftir ljósinu sem lýsir okkur í Jesú Kristi og hrekur hverkyns nótt á brott. Því að hann er ljósið okkar að eilífu.