4. sunnudagur í föstu – miðfasta (laetare)
Vers vikunnar:„Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt.” (Jóh 12.24)
Kollekta:
Almáttugi Guð, vér biðjum þig: Lát oss sem maklega gjöldum gjörða vorra, endurnærast af hugsvölun náðar þinnar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 2Mós 16.11-18
Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“
Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar.
Pistill: Fil 2.1-5
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Guðspjall: Jóh 6.47-51
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir hefur eilíft líf. Ég er brauð lífsins. Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu. Þetta er brauðið sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því deyr ekki. Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“
Sálmur: 46
Vor Drottinn Jesús, dýrð sé þér,
þig Drottinn Jesús, lofum vér.
Til hjálpar oss í heim komst þú,
til hjálpar oss þú ríkir nú,
þú styrkir oss í stríði og neyð,
þú styður oss á sorgarleið,
þú leiðir oss til lífs í deyð.
Með lotning sérhvað lýtur þér
sem lífs á himni og jörðu er.
Þótt veröld kall vald þitt hátt,
það veikt er æ og þrýtur brátt,
en ríkið þitt ei raskast má,
það rétti og sannleik byggt er á,
og aðeins þar er frelsi að fá.
Vorn óstyrk Drottinn þekkir þú
og það, hve oft vor dofnar trú.
Æ, veit oss styrk, svo veröld flá
ei villt oss geti sannelik frá,
lát hjört vor svo helgast þér,
að heilags friðar njótum vér
og hreppum arf, sem aldrei þver.
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Gleðjast skulu þau öll í þér, Drottinn Guð, þau sem tilheyra þér. Gef þú okkur saðningu með brauði lífsins, svo að við lifum í krafti sonar þíns og mætum hvert öðru í kærleika. Þess biðjum við í nafni Jesú Krists. Amen.