Aðfangadagur páska, páskavaka - Laugardagur fyrir páska - Hinn heilagi hvíldardagur (Sabbatum sanctum)
Laugardagurinn fyrir páska er kallaður laugardagurinn kyrri. Þá er íhugunarefnið: Jesús dvelst í gröf sinni. Þessi dagur hefur frá fornu fari engan lit í reglum um kirkjuliti.Textaröð: B
Pistill: 1Pét 3.18-22
Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Guðspjall: Matt 27.62-66
Næsta dag, hvíldardaginn, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“
Pílatus sagði við þá: „Hér hafið þið varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þið kunnið.“
Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.
Sálmur: 278
Góði Jesús, fyrir greftran þín
gefðu síðasta útför mín
verði friðsöm og farsæl mér,
frelsuð sál nái dýrð hjá þér.
Helgum Guðs börnum Herrans hold
helgaði bæði jörð og mold,
gröfin því er vort svefnhús sætt,
svo má ei granda reiðin hætt.
Svo að lifa, ég sofni hægt,
svo að deyja, að kvöl sé bægt,
svo að greftrast sem Guðs barn hér,
gefðu, sætasti Jesús, mér.
Hallgrímur Pétursson (Ps. 49)
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, þú sem ert dáinn og grafinn fyrir okkur. Þú ert stiginn niður til Heljar, niður í ríki dauðans, til sigra dauðann að eilífu. Við sem erum skírð til dauða þíns. biðjum þig : Ver þú kraftur í okkur til þess hið spillta, synduga eðli deyi daglega og megum fyrir gröf þína og dauða þinn eignast með þér sigur upprisinnar. Þig lofum við að eilífu. Amen.