Annar páskadagur
Litur: Hvítur.Vers vikunnar:
„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb.1.18b) Andstef: Drottinn er upprisinn, hann er sannarlega upprisinn.
Kollekta:
Almáttugi Guð, sem á helgri páskahátíð hefur gefið heiminum heilsu og líf, vér biðjum þig: Lát þína himnesku gjöf bera ávöxt hjá oss, sem þú hefur kallað til þíns eilífa frelsis og lífs. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Slm 16.8-11
Ég hef Drottin ætíð fyrir augum,
þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki.
Fyrir því fagnar hjarta mitt, hugur minn gleðst
og líkami minn hvílist í friði
því að þú ofurselur helju ekki líf mitt,
sýnir ekki gröfina þeim sem treystir þér.
Kunnan gerðir þú mér veg lífsins,
gleðignótt er fyrir augliti þínu,
yndi í hægri hendi þinni að eilífu.
Pistill: 1Pét 1.3-9
Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum og veitt oss óforgengilega, flekklausa og ófölnandi arfleifð sem yður er geymd á himnum. Kraftur Guðs varðveitir yður sem trúið til þess að þér öðlist hjálpræðið sem albúið bíður þess að opinberast á efsta degi.
Fagnið því þótt þið nú um skamma stund hafið orðið að hryggjast í margs konar raunum. Það er til þess að trúfesti ykkar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó er reynt í eldi, geti orðið ykkur til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists. Þið hafið ekki séð hann en elskið hann þó. Þið hafið hann ekki nú fyrir augum ykkar en trúið samt á hann og fagnið með óumræðilegri og dýrlegri gleði þegar þið eruð að ná takmarki trúar ykkar, frelsun sálna ykkar.
Guðspjall: Jóh 20.11-18
En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.
Sálmur: 147
Sigurhátíð sæl og blíð
ljómar nú og gleði gefur,
Guðs son dauðann sigrað hefur,
nú er blessuð náðartíð.
Nú er fagur dýrðardagur,
Drottins hljómar sigurhrós,
nú vor blómgast náðarhagur,
nú sér trúin eilíft ljós.
Ljósið eilíft lýsir nú
dauðans nótt og dimmar grafir.
Drottins miklu náðargjafir,
sál mín, auðmjúk þakka þú.
Fagna, Guð þér frelsi gefur
fyrir Drottin Jesú Krist
og af náð þér heitið hefur
himnaríkis dýrðarvist.
Drottinn Jesús, líf og ljós
oss þín blessuð elska veitir,
öllu stríði loks þú breytir
sæluríkt í sigurhrós.
Mæðu’ og neyð þín miskunn sefi,
með oss stríði kraftur þinn.
Sigur þinn oss sigur gefi,
sigurhetjan, Jesús minn.
Sb. 1871 – Páll Jónsson
Bæn dagsins:
Guð, þú ert grundvöllurinn og styrkurinn. Hjá þér getum við hrasað og dottið og þú grípur okkur. Uggur og ótti, ógn og kvíði halda okkur oft í greipum sér. Þau beygja okkur og slá okkur með blindu og málhelti, eins og við værum líflaus og önduð. Hjá þér, Guð, breytist allt, þú lífgar hið dauða, þú gefur nýtt líf, þú, Guð, sem ert grundvöllur og styrkur, og gefur líf í miðjum dauða. Í brauði og víni við borð þitt, er Jesús Kristur, lífgjöf þín. Amen.